Settar verði reglur um rafhlaupahjól

Miðað verður við vínandamagnið 0,5 prómíl, sem er það sama …
Miðað verður við vínandamagnið 0,5 prómíl, sem er það sama og gildir fyrir vélknúin ökutæki. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í skýrslu starfshóps innviðaráðuneytisins er lagt til að skýr mörk verði sett varðandi ölvun ökumanna rafhlaupahjóla, aldurstakmörk ökumanna verði þrettán ár og að bannað verði að breyta hámarkshraða rahlaupahjólanna. Þá er lagt til að umferðarfræðsla verði með skýrum hætti hluti aðalnámskrár grunnskóla.

Þetta kemur fram í skýrslu starfsfhóps innviðaráðuneytisins um smáfarartæki, og geta því fleiri tæki fallið þar undir en rafhlaupahjól. Eru þar kynntar sex tillögur til úrbóta sem er ætlað að auka öryggi notenda og annarra vegfarenda og styðja jafnframt við notkun fjölbreyttra umhverfisvænna fararskjóta.

Skýrslan verður höfð til hliðsjónar við undirbúning frumvarps til breytinga á umferðarlögum sem lagt verður fram á Alþingi næsta vetur.

Tillögur hópsins til úrbóta eru eftirfarandi:

  1. Nýr flokkur ökutækja: Nýr ökutækjaflokkur smáfarartækja verði innleiddur í umferðarlög. Í reglugerð verði að finna nánari flokkun smáfarartækja eftir gerð og eiginleikum. Miðað verði við að smáfarartæki séu ekki hönnuð til hraðari aksturs en 25 km/klst. Hjól sem eru yfir settum mörkum verði ekki leyfileg í umferð.
  2. Ölvun ökumanna: Sett verði hlutlæg viðmið sem feli það í sér að refsivert verði að stjórna smáfarartæki ef magn áfengis er meira en 0,5 ‰ í blóði ökumanna, eða 25 mg vínanda í hverjum lítra lofts sem er sambærilegt við mörk við akstur vélknúinna ökutækja. Sektir vegna brota verði hækkaðar í forvarnarskyni og miðað við að ljúka málum á staðnum með greiðslu sektar, fremur en að handtaka ökumenn og færa á lögreglustöð til skýrslutöku og blóðrannsóknar, ef hjá því verður komist.
  3. Aldur ökumanna: Aldursmörk ökumanna aflknúinna smáfarartækja verði 13 ár en hjálmaskylda miðist við yngri en 16 ára.
  4. Almennt bann við því að breyta hámarkshraða: Lagt verði bann við breytingum á hraðastillingum aflknúinna smáfarartækja, léttra bifhjóla og rafmagnsreiðhjóla.
  5. Færni ungmenna í umferð: Í umferðarlögum segir að umferðarfræðsla skuli fara fram í leik-, grunn- og framhaldsskólum og að ráðherra sem fer með fræðslumál ákveði nánari tilhögun fræðslu í aðalnámskrá. Til að tryggja fylgni við lög er lagt til að ráðherra beiti sér fyrir því að umferðarfræðsla verði hluti af aðalnámsskrá.
  6. Akstur á götum: Ef tillögur starfshópsins hvað varðar ölvun við akstur og aldursmörk ganga eftir telur hópurinn að leyfa skuli akstur rafknúinna smáfarartækja í almennri umferð á vegum þar sem hámarkshraði er 30 km/klst. eða lægri, enda getur veghaldari lagt sérstakt bann við umferð þeirra á einstökum vegum eða vegköflum, sé ástæða til.
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra.
Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Slysatíðni áhyggjuefni

„Smáfarartækjum, aðallega rafhlaupahjólum, hefur fjölgað ört á síðustu árum. Í skýrslunni segir að þægindi og aukin vitund um umhverfisáhrif umferðar stuðli að þessum vexti en ávinningur samfélagsins felist m.a. í minni umferðartöfum í þéttbýli og minni mengun frá umferð“, segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.

Athugun á slysagögnum leiddi í ljós að slys eru algeng. Árið 2021 var hlutfall þeirra sem voru á rafhlaupahjóli meðal alvarlega slasaðra orðið 17 prósent en akstur á rafhlaupahjólum er innan við eitt prósent af allri umferð.

Þá kom í ljós að 40 prósent þeirra sem slasast alvarlega á rafhlaupahjóli voru á ferð á milli klukkan ellefu og fjögur á föstudags- og laugardagskvöldum. Margir þeirra reynast einnig ölvaðir við komu á slysadeild Landsspítala.

Í könnun um aksturshegðun kom í ljós að 40 prósent ungra vegfarenda (18-24 ára) hafa ekið tækjum undir áhrifum áfengis. Loks er algengt að börn undir 10 ára aldri komi á slysadeild eftir óhöpp við akstur rafhlaupahjóla.

„Við þurfum að hafa hraðar hendur við að tryggja umferðaröryggi allra þeirra sem kjósa að nota smáfarartæki. Tillögur starfshópsins eru því mikilvægt innlegg í endurskoðun umferðarlaga með tilliti til þessa nýja ferðamáta,“ er haft eftir Sigurði Inga Jóhannssyni, innviðaráðherra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert