Setur saman viðbragðsteymi vegna neyðarástands

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra.
Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra. mbl.is/Unnur Karen

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra mun tilkynna í dag nýjan viðbragðshóp til að bregðast við neyðarástandinu á bráðamóttöku Landspítalans og víðar í heilbrigðiskerfinu. Þetta staðfestir Willum í samtali við mbl.is í dag.

Segir Willum hlutverk viðbragðsteymisins vera að setja saman þrjár tímasettar og útfærðar áætlanir. Eina til skemmri tíma, aðra til náinnar framtíðar og þriðju fyrir framtíðina hvað varðar mönnun og menntun.

Mun viðbragðsteymið samanstanda af ýmsum aðilum innan heilbrigðiskerfisins að sögn Willum. „Má nefna aðila úr allri heilbrigðisþjónustu til dæmis frá embætti landlæknis, frá heilsugæslunni, frá samtökum fyrirtækja í velferðarþjónustu, samtökum verslunar og þjónustu sem koma fram fyrir sjálfstætt starfandi aðila og heilsugæslur og auðvitað fulltrúa frá bráðamóttökunni og frá spítölunum líka,“ tekur Willum fram.

Að sögn Willums munu þessir fulltrúar koma saman í viðbragðsteymi og taka tillögur frá átakshóps sem gerði skýrslu um ástand bráðamóttökunnar árið 2020 en þær tillögur má rekja til baka til ársins 2018. 

Langvarandi neyðarástand

Segir Willlum þetta viðbragðsteymi vera sett saman til að bregðast við langvarandi neyðarástandi sem ríkt hefur á bráðamóttökunni að hans mati. „Það er neyðarástand á bráðamóttöku en það er líka búið að vera langvarandi. Birtingarmynd þessa álags er þyngra því að við erum með sama fólk á vaktinni núna og sem að kom okkur í gegnum heimsfaraldur,“ segir Willum.

Telur Willum helstu úrræði sem eru til taks til að bregðast við þessu ástandi vera: „Aukin legu-, endurhæfingar- og hjúkrunarrými, að endurskipuleggja rekstur Vífilsstaða og með því að nýta mannskapinn betur nýtum við rýmin enn betur.“

Þá bætir hann við að Landspítalinn sé í samræmi við vinnu viðbragðsteymisins að fara endurskoða verkferla um það hvernig fólk fer frá bráðamóttökunni yfir á aðrar deildir innan spítalans. 

Í lokin tekur Willum fram að stuðningur við fólk sem sinnir heilbrigðisþjónustu skipti höfuð máli og að þannig komumst við í gegnum þetta í sameiningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina