Vatnslaust á Seyðisfirði eftir að stofnlögn rofnaði

Möl og grjót skolaðist yfir veginn fyrir framan gömlu Fjarðaselsvirkjunina …
Möl og grjót skolaðist yfir veginn fyrir framan gömlu Fjarðaselsvirkjunina eftir að rörin gáfu sig. Ljósmynd/Ómar Bogason

Þrýstirör gaf sig með þeim afleiðingum að stofnlögn vatnsveitunnar fyrir Seyðisfjarðarkaupstað rofnaði. Vonast er til þess að viðgerð verði lokið fyrir kvöldmat, en vatnslaust er í bænum.

„Þrýstirör að neðri virkjuninni sem er í notkun í Fjarðará gaf sig á svona óheppilegum stað því rétt við hliðina er stofnlögn vatnsveitunnar fyrir bæinn og hún rofnaði við þetta,“ segir Aðalsteinn Þórhallsson, framkvæmdastjóri HEF veitna, í samtali við mbl.is.

Stærra rörið á myndinn er þrýstipípa virkjunarinnar og sú grennri …
Stærra rörið á myndinn er þrýstipípa virkjunarinnar og sú grennri er stofnlögn vatnsveitunnar. Möl og grjót hefur skolast upp á túnið eftir að rörið gaf sig. Ljósmynd/HEF veitur/ÞBR

Skriða í kjölfarið

„Þetta er ekki stórmál en við stefnum að því að klára að laga þetta fyrir kvöldmat,“ segir Aðalsteinn en töluverð ummerki eru eftir vatnsfallið.

„Það varð skriða vegna þessarar miklu skolunar. Það var gríðarlega mikið vatnsfall sem skolaði úr farveginum þarna fyrir neðan,“ segir Aðalsteinn að lokum.


mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert