Ráðherrar tjáðu sig óvarlega og ófaglega

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir við upphaf faraldursins.
Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir við upphaf faraldursins. mbl.is/Árni Sæberg

„Menn tjáðu sig oft óvarlega og hreint ófaglega,“ segir Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og vísar þá til ráðherra ríkisstjórnarinnar sem gagnrýndu tillögur hans og sóttvarnaaðgerðir meðan heimsfaraldurinn Covid-19 var enn helsti áhrifavaldur samfélagsins. 

Frumskilyrði árangurs sé að ná samstöðu og því hafi verið mikilvægt að ríkisstjórnin sýndi samstöðu. „Ég var alltaf að benda á þetta.“

Þórólfur var gestur í hlaðvarpinu Chess after dark, sem þeir Leifur Þorsteinsson og Birkir Karl Sigurðsson, stýra. Leit hann þar yfir farinn veg á tímum Covid-19 faraldursins. 

Hefði tvisvar mátt bregðast harðar við

Aðspurður hvort hann komi auga á einhver mistök í viðbrögðum við faraldrinum, segist Þórólfur ekki líta svo á að um mistök hafi verið að ræða. Hann nefnir þó tvö tilvik þar sem hann telur að réttara hefði verið að ráðast í harðari aðgerðir en gert var. 

„Við hefðum átt að bregðast harðar við þriðju bylgjunni strax, smitin komu frá krám, partýstöðum í bænum og gymminu [líkamsræktarstöðvum].  Það sem við gerðum var að beita harðari aðgerðum á höfuðborgarsvæðinu og vonuðumst til þess að kæfa bylgjuna hér.“ Ekki leið á löngu þar til smitin breiddust út á land, enda var fólk farið að gera sér dagsferð út fyrir höfuðborgarsvæðið til þess að sækja ýmsa þjónustu. 

„Þegar Delta byrjaði, sumarið 2021, hefðum við átt að bregðast harðar við strax.“ Á þeim tímapunkti var komin tregða, bæði í kerfið og í stjórnmálin, að sögn Þórólfs. 

Best að blanda bóluefnunum

Janssen er ágætis bóluefni að sögn Þórólfs, þó það hafi ekki reynst vel sem eins skammta bóluefni líkt og það var upphaflega markaðssett. 

Astra Zeneca bóluefnið er sísta bóluefnið en besta vörnin fékkst með blöndu af bóluefnunum að mati Þórólfs. „Til dæmis fyrsta sprauta með Astra, önnur með Pfizer og svo þriðja með Moderna, sennilega öflugasta vörnin þannig.“

Nú stendur til boða að fá fjórða bóluefnaskammtinn. Þórólfur segir það æskilegt fyrir aldraða og þá sem eru veikir fyrir. Einnig mælir hann með því að þeir sæki sér fjórða skammtinn, sem ætla sér að ferðast til landa þar sem útbreiðsla er enn mjög mikil, eins og Norður Kóreu.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert