„Full harkalegar aðgerðir“ að loka Reynisfjöru

Ferðmenn í Reynisfjöru.
Ferðmenn í Reynisfjöru. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ljúka þarf áhættumati á hrunhættu og öldufalli í Reynisfjöru og í framhaldinu þarf hópur sérfræðinga að setjast niður og koma með tillögur um úrbætur. Þetta segir Þorbjörg Gísladóttir, sveitarstjóri Mýrdalshrepps. 

Erlendur ferðamaður á áttræðisaldri lést fyrir helgi eftir að alda í Reynisfjöru hreif hann með sér í sjóinn. Þó nokkrir ferðamenn hafa annað hvort látist í fjörunni eða verið hætt komnir í gegnum árin.

Spurð út í ummæli Lilju Alfreðsdóttur, viðskipta- og menningarmálaráðherra, um mögulega lokun á ferðamannastöðum á borð við Reynisfjöru ef hætta er fyrir hendi, segir Þorbjörg málflutninginn vera sérkennilegan. „Ég held að þessu sé kastað fram án þess að kynna sér málin en auðvitað þarf að gera eitthvað í þessu, við vitum það. Við teljum að þetta áhættumat þyrfti að fara í gegn, bæði með tilliti til hrunhættu og öldufalls. Síðan verði staðan tekin út frá því um næstu skref,“ segir hún.

„Ég skil hvað ráðherra er að fara að einhverju leyti um að það þurfi að grípa til aðgerða. En að loka Reynisfjöru eru að mínu mati full harkalegar aðgerðir. Það má ekki fara í einhverjar aðgerðir án þess að farið sé í rannsóknir fyrst.“

Ferðamenn hætt komnir í Reynisfjöru.
Ferðamenn hætt komnir í Reynisfjöru. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ætlaði að fylgja málinu eftir

Þorbjörg nefnir að hátt í þrjú ár séu liðin síðan Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, þáverandi ferðamálaráðherra og núverandi utanríkisráðherra, ætlaði að fjármagna áhættumat vegna Reynisfjöru og fylgja málinu síðan eftir. Verkefnið var í höndum lögreglunnar á Suðurlandi, sem naut aðstoðar Vegagerðarinnar, Veðurstofunnar og almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra.

„Við höfum kallað eftir því [áhættumatinu] og ítrekað spurt eftir því en það hefur ekkert gerst engu að síður.“

Þorbjörg Gísladóttir, sveitarstjóri Mýrdalshrepps.
Þorbjörg Gísladóttir, sveitarstjóri Mýrdalshrepps. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þegar viðræður voru upphaflega í gangi um áhættumatið, sem sveitarfélagið tók þátt í, var talað um að hættulegar aðstæður sköpuðust á svæðinu út af öldufalli í mesta lagi 10 til 15 daga á ári, að sögn Þorbjargar. Hrunhættan úr berginu sé þó einnig talsverð, enda aðeins nokkur ár síðan stórt hrun varð þar að nóttu til.

Kennir landeigendum ekki um

Talað hefur verið um að tillögur um úrbætur hafi strandað á mótmælum nokkurra landeigenda en Þorbjörg vill ekki kenna þeim um. „Það er enginn sem á verkefnið og enginn sem fylgir því eftir. Það er alveg sama hvað við setjum upp mörg skilti, það hefur ekkert að segja, það hefur sýnt sig. Það þurfa að setjast niður sérfræðingar eftir áhættumatið og gera það af fullri alvöru,“ greinir hún frá og bætir við að allir vilji koma í veg fyrir banaslys. Stjórnvöld þurfi fyrst og fremst að sinna málinu af festu án þess að hver bendi á annan.

Aðspurð kveðst hún ekki hafa nákvæma tölu yfir fjölda landeigenda en telur þá vera yfir eitt hundrað talsins. Sífellt fleiri hafi bæst við sem eigendur í gegnum árin. Oftast séu það erfingjar með misstóra hluti.

Ferðamenn í Reynisfjöru.
Ferðamenn í Reynisfjöru. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ferðamenn á eigin ábyrgð

Hvað ábyrgð varðar þegar kemur að slysum í Reynisfjöru, nefnir Þorbjörg að ferðamenn séu þar á eigin ábyrgð en hún viti að fararstjórar hafi brýnt fyrir þeim hættuna sem er þar fyrir hendi. Enginn fari þangað niður án þess að vita af henni.

Vangaveltur hafa verið uppi um að rukka aðgangseyri að svæðinu, girða það á einhvern hátt af eða hafa þar gæslu og segir Þorbjörg að utanaðkomandi sérfræðingar sem hafi vit á þessum málum eigi að fara yfir þetta eins og annað. Sveitarfélagið hafi kallað eftir því.

mbl.is