Trúir því að nú eigi að leysa málin

Hjalti Már Björnsson, starfandi yfirlæknir á bráðadeild Landspítala.
Hjalti Már Björnsson, starfandi yfirlæknir á bráðadeild Landspítala. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hjalti Már Björnsson, starfandi yfirlæknir á bráðadeild Landspítala, fagnar nýju viðbragðsteymi heilbrigðisráðuneytisins og vonast eftir því að legurýmum spítalans verði fjölgað.

Eins og greint var frá í fyrradag hafa, að frumkvæði heilbrigðisráðuneytisins, ýmsar heilbrigðisstofnanir og samtök sem heilbrigðiskerfinu tengjast myndað viðbragðsteymi um bráðaþjónustu í landinu vegna alvarlegrar stöðu innan hennar.

„Ég fagna því að það virðist vera sem svo að forstjóri og ráðherra taki þessa stöðu mjög alvarlega núna og það séu í undirbúningi aðgerðir af fullri hörku til að snúa við þessu ófremdarástandi,“ segir Hjalti í samtali við Morgunblaðið.

Hjalti bendir á að ákall hafi verið í hálfan áratug um að laga stöðuna svo hann bíður nú eftir því að sjá aðgerðir sem muni leysa hana. Það sé þó framfararskref að ráðherra og forstjóri Landspítalans virðist taka ástandið mjög alvarlega.

Fram kemur í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu að nánar verði sagt frá viðbrögðum teymisins þegar þau hafa verið skilgreind frekar. Spurður um það hvernig viðbrögð hann vilji sjá bendir Hjalti á að árum saman sé búið að kalla eftir því að fjölga þurfi legurýmum til að annast sjúklinga sem þarfnast innlagnar.

Ætlar að halda í vonina

„Ég minni á að í raun og veru hefur grunnvandamálið aldrei verið á bráðamóttökunni. Vandamálið er að það eru ekki til pláss fyrir sjúklinga sem þurfa innlögn. Það gerir það að verkum að innlagnarsjúklingar eru vistaðir tugum saman á bráðamóttöku sem gerir okkur ókleift að sinna okkar starfi. En nú ætla ég að halda í vonina að það séu bjartari tímar fram undan og þetta verði leyst,“ segir Hjalti og bætir við að lokum:

„Við verðum að trúa því að það sé nú verið að leysa málin fyrir alvöru.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert