Vilja að póstar verði lagðir fram til sönnunar

Nokkrir landeigendur segja það lygi að halda fram að að …
Nokkrir landeigendur segja það lygi að halda fram að að þeir séu á móti öryggisúrbótum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Nokkrir landeigendur að Reynisfjöru hafa formlega óskað eftir því við stjórn slysavarnarfélagsins Landsbjargar að tölvupóstar verði lagðir fram til sönnunar þess að landeigendurnir hafi sett sig upp á móti öryggisúrbótum á svæðinu til að sporna við slysum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá hópi landeigenda.

Málið má rekja til þess að í viðtali í nóvember síðastliðnum, hélt talsmaður Landsbjargar því fram í fjölmiðlum, að landeigendur hefðu sett sig upp á móti öryggisúrbótum. Landeigendur vísa þeim fullyrðingum á bug. Enginn landeigandi hafi sett sig upp á móti úrbótum í fjörunni. Þeir hafi hins vegar sett sig upp á móti útliti á einu skilti sem til stóð að setja upp og komið með tillögur að úrbótum.

„Það er ekki það sama og að setja sig upp á móti öryggisúrbótum í fjörunni. Að halda því fram er beinlínis lygi,“ segir í tilkynningunni.

Landeigendur fóru þess á leit við Landsbjörg í nóvember að alvarlegar aðdróttanir í þeirra garð yrðu leiðréttar. Talsmenn Landsbjargar hafi þá sagt að þeir hefðu tölvupósta undir höndum sem sönnuðu að landeigendur hefðu sett sig upp á móti öryggisumbótum. Verði hins vegar póstarnir ekki lagðir fram vilja landeigendur að ummælin verði dregin til baka og afsökunarbeiðni gefin út.

Takmarkaðar aðgerðir hins opinbera 

Landeigendur segjast hafa átt samtal við almannavarnir og Vegagerðina árið 2019 um breytingar á áðurnefndu skilti. Bætt var inn á það merkingum og það gert í stíl við önnur skilti. Skiltið hafi hins vegar aldrei verið sett upp.

Á árunum 2016 til 2017 hafi verið hönnuð og sett upp þrjú skilti, fjármögnuð af hinu opinbera, en annað hafi hið opinbera ekki gert á svæðinu. Hins vegar hafi eigendur Svörtu fjörunnar bætt við merkingum og skiltum að eigin frumkvæði, en þess ber að geta að þeir landeigendur sem sendu frá sér tilkynninguna eru eigendur veitingastaðarins.

Þá hafi ferðamálaráðherra falið Ferðamálastofu það árið 2017 að ganga til samninga við Vegagerðina um þróun ölduspárkerfis vegna Reynisfjöru og Kirkjufjöru í þeim tilgangi að spá fyrir um hættulegar aðstæður. Spákerfið megi nú finna á heimasíðu Vegagerðarinnar en engar upplýsingar um hvernig nota eigi kerfið. Engin kynning hafi fram á kerfinu við við hagsmunaaðila; fólk í ferðaþjónustu eða landeigendur.

Áhættumat sem fyrrverandi ferðamálaráðherra hafi ítrekað minnst á og hafi tekið þrjú ár að vinna virðist heldur ekki vera til, að þeirra sögn.

Hættulaust að vera uppi á fjörunni

Landeigendur segja aðstæður í Reynisfjöru síbreytilegar. Mesta hættan sé þegar sjórinn nái alveg upp að stuðlaberginu og sog myndast. Þá sé mikilvægt að loka fyrir aðgengi að stuðlaberginu. Hins vegar sé hættulaust að vera uppi á fjörunni og njóta staðarins og útsýnisins.

Þau segjast hafa tekið vel í óskir um fundi, samvinnu og samtal og séu öll af vilja gerð að bæta öryggi í Reynisfjöru.

mbl.is