Kom á óvart hvað kennarastarfið var skemmtilegt

Jón Már Héðinsson, skólameistari Menntaskólans á Akureyri.
Jón Már Héðinsson, skólameistari Menntaskólans á Akureyri. Mbl.is/Margrét Þóra Þórsdóttir

Jón Már Héðinsson lætur af störfum skólameistara Menntaskólann á Akureyri (MA) að loknu þessu skólaári eftir 42 ára starf við skólann. Hann segir í samtali við mbl.is að starfsferillinn við skólann hafi verið ákaflega góður tími.

„Það hafa verið frábærlega skemmtilegir nemendur sem maður hefur kynnst og fengið að vinna með. Ég hef einnig verið ákaflega heppin með samstarfsfólk, þannig að þetta er búið að vera gefandi tími og gaman að fást við þau verkefni sem við höfum verið að fást við á hverjum tíma.“

Sá sig ekki sem kennara í framhaldsskóla

Jón Már lauk stúdentsprófi frá skólanum árið 1974 og hóf síðan störf sem kennari árið 1980 eftir að hafa lært íslensku og sagnfræði við Háskóla Íslands, þar sem hann tók einnig kennsluréttindin.

Inntur eftir því hvort MA hafi kallað í hann segir Jón Már að svo hafi ekki endilega verið. 

„Mig langaði til að prófa en upphaflega ætlaði ég nú ekki endilega að fara í kennslu eins og mjög margir kennarar segja, að þeir hafi ekki séð sig sem kennara þegar þeir voru sjálfir í framhaldsskóla.“

Hann segir þó að hann hafði mikla ástríðu fyrir að verða kennari og að það hafi komið á óvart hvað honum hafi þótt starfið skemmtilegt. Þá segir Jón Már að starfið sé afskaplega krefjandi og gefandi.

Heldur áfram að njóta lífsins

„Mér bauðst síðan að fara í stjórnun hér í skólanum, fyrst sem áfangastjóri og síðan sem aðstoðarskólameistari, mér fannst það vera mjög skemmtilegt og gefandi líka en ætlaði mér svo ekki að fara neitt meira í þá áttina.“

Svo varð hins vegar úr að Jón Már var skipaður sem skólameistari haustið 2003 og tók við af Tryggva Gíslasyni.

Hann hefur því starfað sem skólameistari í 19 ár en síðasta embættisverk hans er að brautskrá nemendur þann 17. júní.

Jón Már lagði stund á körfubolta á yngri árum og segir hann að hann hafi oft gripið í hugmyndafræði íþróttarinnar er kemur að skólameistarastarfinu.

„Öll verkefni sem við höfum fengið í hendur hef ég reynt að gera þau að einhverskonar leik, þannig að það sé skemmtilegt og krefjandi að fást við þau. Þá hafa þau líka gengið vel, hvort sem það hefur snúið að okkur sjálfum eða okkur öllum í skólanum sem heild. Það fylgir alltaf alvara hverjum leik en það þarf að gera þetta áhugavert, skemmtilegt og krefjandi að fást við.“

Hvað tekur nú við?

„Bara það sama og ég hef alltaf gert, njóta lífsins og augnabliksins. Ég hef aldrei hugsað öðruvísi en bara að njóta hvers dags svo kemur þá bara lífið til manns eins og það vill,“ segir Jón Már að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert