Tólf slösuðust í níu umferðarslysum

Umferðaróhöpp á höfuðborgarsvæðinu voru 30 í síðustu viku.
Umferðaróhöpp á höfuðborgarsvæðinu voru 30 í síðustu viku. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tólf vegfarendur slösuðust í níu umferðarslysum á höfuðborgarsvæðinu í síðustu viku. Í umdæminu var alls tilkynnt um 30 umferðaróhöpp á tímabilinu, er segir í tilkynningu frá lögreglunni.

Sunnudaginn 5. júní voru tveir fluttir á slysadeild eftir þriggja bíla árekstur á Reykjanesbraut og jafn margir fluttir á slysadeild í árekstri tveggja bifreiða á gatnamótum Bústaðarvegs og Háaleitisbrautar.

Daginn eftir varð árekstur á gatnamótum Túngötu og Hólavallagötu þar sem báðir ökumenn bifreiðanna voru fluttir á slysadeild.

Á fimmtudaginn 9. júní var keyrt aftan á kyrrstæða bifreið við gatnamót Reykjanesbrautar og Hamrabergs og var einn fluttur á slysadeild. Rafmagnhlaupahjól og bifreið lentu saman á gatnamótum Hringbrautar og Nauthólsvegar en hjólreiðamaðurinn var fluttur á slysadeild.

Þrjú umferðarslys voru tilkynnt á föstudaginn. Ökumaður grunaður um lyfjaakstur var fluttur á slysadeild eftir aftanákeyrslu á Miklubraut nálægt Skeifunni en annar ökumaður var fluttur á slysadeild eftir fjögurra bíla árekstur á Miklubraut við Stakkahlíð rúmri klukkustund síðar. Einn hjólreiðamaður var fluttur á slysadeild eftir að hann datt af rafmagnshlaupahjóli á gangstíg við Gylfaflöt og Rimaflöt.

Laugardaginn 11. júní féll hjólreiðamaður af reiðhjóli sínu við Borgartún 18 og var fluttur á slysadeild.

Lögreglan hvetur ökumenn sem áður að fara varlega í umferðinni og að virða umferðarlög.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert