Á annað hundrað eiga land í Reynisfjöru

Reynisfjara er einn vinsælasti ferðamannastaður landsins.
Reynisfjara er einn vinsælasti ferðamannastaður landsins. mbl.is/RAX

Á annað hundrað manns eiga land í Reynisfjöru en hið opinbera þarf samþykki frá landeigendum fyrir þeim aðvörunarmerkjum sem það setur upp á svæðinu. Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri segist ekki efast um það að landeigendur vilji, eins og aðrir, að öryggismálin í fjörunni verði bætt. Aftur á móti séu ekki allir sammála um það hvernig auka skuli öryggi á svæðinu.

Banaslys varð í fjörunni í síðustu viku, þegar alda hreif með sér ferðamann á áttræðisaldri. Var það annað banaslysið á innan við ári sem varð í fjörunni. Síðast í gær barst björgunarsveitum útkall vegna fjörunnar en þá urðu tveir ferðamenn innlyksa uppi við klett á háflóði. Fólkið slasaðist ekki.

Ferðamálastofa hefur boðað til fundar við landeigendur og fulltrúa þeirra stofnana sem unnið hafa að skoðun öryggismála í Reynisfjöru næstkomandi þriðjudagskvöld, 21. júní. Þar verður rætt hvernig auka megi öryggi þeirra sem heimsækja Reynisfjöru. Ferðamálastofa birti auglýsingu í gær, þar sem allir landeigendur voru hvattir til að mæta og taka þátt í umræðum. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, ráðherra ferðamála, mun mæta á fundinn.

Björgunarsveitir að störfum í Reynisfjöru um helgina.
Björgunarsveitir að störfum í Reynisfjöru um helgina. mbl.is/Jónas Erlendsson

Telur ekki að sambandið sé stirt

Skarphéðinn segir að markmið fundarins sé m.a. að komast að því hvernig stofnanirnar sem koma að öryggismálum í Reynisfjöru geti átt náið og gott samstarf við landeigendur um öryggismál ferðamanna á svæðinu.

„Eins finnst mörgum að það hafi vantað samtal og það er boðað til þess með þessum hætti,“ segir Skarphéðinn sem vonast til þess að allir sem eigi hlut að máli mæti á fundinn.

Í fjölmiðlum hefur því verið haldið fram að nokkrir landeigendur hafi lagst gegn úrbótum í öryggismálum á svæðinu en landeigandinn Ólafur Steinar Björnsson vísaði því á bug í samtali við mbl.is á mánudag. Hann sagði að hann hafi gert athugasemdir við til­lög­ur að um að setja upp ljósam­ast­ur með blik­k­ljós­um, sem gefa viðvör­un­ar­merki þegar brimið er sem mest.

Spurður hvort sambandið á milli landeigenda og þeirra stofnana sem sjá um öryggismál á svæðinu sé stirt, segir Skarphéðinn:

„Það held ég ekki. Eftir að mín aðkoma byrjaði að þessu, hef ég átt gott samtal við þessa landeigendur sem ég hef talað við. Ég er ekki í nokkrum vafa um að landeigendur Reynisfjöru vilja að þetta sé í lagi. Svo eru ýmsar útfærslur á þessu og á því virðast menn hafa ólíkar skoðanir. Þá er nauðsynlegt að ræða það og finna út úr því hvernig við getum gert þetta þannig að allir telja að það sé hægt að hámarka öryggi.“

Ekki eru allir sammála um það hvernig sé hægt að …
Ekki eru allir sammála um það hvernig sé hægt að bæta öryggið í fjörunni. mbl.is/Jónas Erlendsson

Ekki ljóst hvort samþykki allra þurfi

Eins og áður segir eru landeigendur á annað hundrað en þeir eiga misstóran hlut í landinu og hafa mismikilla hagsmuna að gæta. Skarphéðinn segir að samþykki landeigenda þurfi fyrir breytingum í fjörunni.

Þurfið þið að fá samþykki frá hverjum og einum landeiganda fyrir því sem þið viljið gera í fjörunni?

„Það er nokkuð sem við erum að reyna að finna út.“

Það hlýtur að vera nokkuð erfitt að tala við hvern einn og einasta?

„Já, það er það, enda geri ég ráð fyrir því að aðkoma þeirra sé ólík. Sumir eru með atvinnustarfsemi sem þessu tengist og aðrir ekki. Svo eru menn með misstóran hlut. Með [því að auglýsa fundinn] eru allir hvattir til þess að mæta og taka þátt í þessu og ég vona að það takist,“ segir Skarphéðinn og jafnframt:

„Það eru lög og reglur sem taka á þessu, með fyrirkomulag eignarréttar og auðvitað spilar það þarna inn í. Ég geri þó ráð fyrir því að þegar það er komið á vel upplýst samtal þarna á milli, þá þurfi menn ekki að vera mikið að velta þessu fyrir sér. Enda hljóta allir að hafa sameiginlegt markmið, um það að öryggi sé eins mikið og hægt er að koma við þarna.“

Aðspurður segir Skarphéðinn að „mjörg margir“ hafi hlutverk í því að bæta öryggi í Reynisfjöru.

 „Við lítum fyrst og fremst á okkar aðkomu þannig að við reynum að samræma vinnuna og koma því til leiðar að allir vinni að öryggi ferðamannsins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert