Börnum 16 mánaða og eldri verði boðið pláss

Nú er verið að vinna með umsóknir barna fædd í …
Nú er verið að vinna með umsóknir barna fædd í apríl 2021 eða fyrr. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gert er ráð fyrir því að börn í Reykjavík fædd í apríl 2021 eða fyrr fái boð um leikskólapláss næsta haust, en börnin verða þá 16 mánaða. Áður hafði börnum fæddum í febrúar sama ár eða fyrr verið boðið leikskólapláss, þegar aðalúthlutun fór fram í mars.

Einhver yngri börn hafa fengið boð en þau eru þá með samþykktan forgang. Þetta kemur fram í skriflegu svari Reykjavíkurborgar við fyrirspurn mbl.is.

Greint var frá því í vor að til stæði að byrja að bjóða 12 mánaða börn­um í Reykjavík leik­skóla­pláss í haust, en borg­in stefndi meðal ann­ars á að taka í notk­un 850 ný leik­skóla­rými á þessu ári til að ná þeim áfanga. Miðað við svör borgarinnar verður hins vegar ekki af því.

Helgi Grímsson, sviðsstjóri skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar, sagði í samtali við mbl.is í síðustu viku að allt yrði gert til hægt yrði að bjóða börnum niður í 12 mánaða leikskólapláss, en það gæti þó verið að borgin ætti við „ofurefli aðstæðna“ að etja í þeim efnum.

Óvænt fjölgun umsókna hefur áhrif

Eftir að aðalúthlutun á leikskólaplássum fór fram í mars hafa bæst við rúmlega tvö hundruð umsóknir um pláss, sem er töluvert meira en búist var við. Er þá bæði um að ræða fólk sem er að koma erlendis frá og flutning fólks til Reykjavíkur úr öðrum sveitarfélögum. Þá hafa tafir á framkvæmdum við leikskóla einnig sett strik í reikninginn.

Helgi sagði unnið hörðum hönd­um þessa dag­ana að reyna að koma sem flest­um börn­um fyr­ir á leik­skól­um borg­ar­inn­ar næsta haust og foreldrar fengju skýr svör síðar í mánuðinum. Er þá verið að vinna með umsóknir barna fædd í apríl 2021 eða fyrr.

Geta ekki öll hafið leikskólagöngu í sínu hverfi

Ekki fá öll börn boð um pláss í þeim leikskóla sem foreldrar óskuðu helst eftir, en hægt er að velja nokkra leikskóla í hverri umsókn. Ef ekki er útlit fyrir að barn fái boð í leikskóla í því hverfi sem það býr í eða sótt erum, bendir starfsfólk Reykjavíkurborgar foreldrum á hvaða skólar eiga laus pláss, en þeir gætu verið utan hverfis. Foreldrar þurfa þá velja að nýju hvaða leikskóla þeir óska eftir og boð er sent út í kjölfarið. Ekkert barn fær boð í leikskóla utan hverfis nema óskað sé eftir því.

Þetta þýðir að einhver fjöldi barna gæti þurft að hefja leikskólagöngu utan síns hverfis eða í öðrum leikskóla en óskað er eftir, en hægt er að sækja um flutning þegar pláss losnar eða bætist við í þeim leikskóla.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert