Nýtt vegglistaverk prýðir Strandgötu í Hafnarfirði

Vegglistaverk Juans prýðir nú gaflinn á Strandgötu 4 í Hafnarfirði, …
Vegglistaverk Juans prýðir nú gaflinn á Strandgötu 4 í Hafnarfirði, en bæjarstjóri segir verkið hafa vakið talsverða athygli að undanförnu. mbl.is/Hákon Pálsson

Vegglistaverk eftir listamanninn Juan var afhjúpað á dögunum og prýðir nú gaflinn á Strandgötu 4 í Hafnarfirði. Um er að ræða klippimynd með ýmsum útilistaverkum sem er að finna í bænum.

„Þetta kemur ofboðslega fallega út og það er mjög mikil ánægja með þetta,“ segir Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar. „Juan hafði samband við bæinn í lok síðasta árs og spurði hvort það væri eitthvert húsnæði sem gæti verið hentugt fyrir vegglistaverk en hann hefur verið að gera þetta víða um land,“ bætir hún við.

Á listaverkinu er sérstakur QR-kóði sem tengist vef menningar- og listamiðstöðvarinnar Hafnarborgar um útilistaverk í Hafnarfirði. Þar er að finna upplýsingar um verkin og hvar þau má finna.

„Þetta er ekki bara fallegt verk í sjálfu sér heldur finnst okkur þetta hafa jákvæð áhrif varðandi það að vekja athygli á þessum listaverkum sem eru í umhverfinu í Hafnarfirði og auka áhuga fólks á að skoða verkin,“ segir Rósa, en um er að ræða ellefu verk eftir ýmsa listamenn. „Þetta er eitt af því sem við viljum gera í bænum, fegra hann og búa til skemmtilega stemningu. Og þetta er viðleitni í þá átt. Mér sýnist það hafa tekist vel af því að fólk er strax farið að sýna þessu mikinn áhuga og mynda.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert