Óöryggi heilbrigðisstarfsfólks geti haft afleiðingar

Willum Þór Þórsson.
Willum Þór Þórsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Willlum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hefur nú sett af stað vinnu við lagafrumvarp til að afnema refsinæmi heilbrigðisstarfsfólks. Willum segir í samtali við mbl.is að þetta sé gert til að minnka óöryggi hjá heilbrigðisstarfsfólki sem að mati Willums getur valdið því að starfsfólk tilkynni ekki alvarleg atvik. 

Að sögn Willums er lagt í þessa breytingu í samræmi við tillögu úr skýrslu starfshóps frá árinu 2015 um úrvinnslu alvarlegra atvika innan heilbrigðiskerfisins. Bendir Willum á að eins og hlutunum er háttað í dag kunni að vera kallað til rannsóknar lögreglu gagnvart einstaka tilvikum og stökum starfsmönnum innan heilbrigðisþjónustunnar. Að mati Willums leiðir þetta til óöryggis heilbrigðisstarfsfólks sem getur haft skaðleg áhrif á þá þjónustu sem boðið er upp á.

„Í heilbrigðisþjónustu, eins og alls staðar annars staðar, fara hlutirnir ekki alltaf alveg eins og þú ætlaðir þér en það þarf ekki endilega vera refsivert,“ segir Willum í samtali við mbl.is og bætir við að öryggiskennd sé það dýrmætasta sem hægt er að bjóða starfsfólki í heilbrigðiskerfinu. 

Getur valdið því að atvik verði ekki tilkynnt

Willum segir að þetta óöryggi heilbrigðisstarfsfólks geti valdið því að starfsfólk tilkynni ekki alvarleg atvik vegna ótta um afleiðingar gagnvart sér. „Eins og málum er háttað núna gætir þú verið dæmdur úr leik og það gæti tekið tíu ár að dæma þig,“ bætir ráðherra við við.

muni ekki koma til með að hafa þau áhrif að engin atvik innan heilbrigðisþjónustu verði rannsökuð af lögreglu.

Spurður um hvernig atvik eins og það sem kom upp á síðasta ári, þar sem hjúkrunarfræðingur á geðdeild var grunaður um manndráp myndi vera meðhöndlað í kjölfar fyrirhugaðs frumvarps, segir Willum það vera erfitt að taka fyrir tiltekin mál. Það sé þó mikilvægast að öll tilvik verði skráð og könnuð í þaula. 

Muni ekki hafa áhrif á öryggi sjúklinga

Spurður hvort að þetta komi til með að skerða öryggistilfinningu þeirra sem þiggja heilbrigðisþjónustu svarar ráðherra því neitandi og segir að afnám refsinæmis heilbrigðisstarfsfólks muni koma til með að auka öryggi sjúklinga og annarra sem fá þjónustu innan heilbrigðiskerfisins. 

„Þetta snýst fyrst og fremst að því að við höfum mjög tryggan aðbúnað að skráningu tilvika þannig að við getum lært af mistökunum,“ segir hann.

Willum tekur fram að fyrirhuguð breyting sé í samræmi við starfsemi í nágrannaríkjum. Bendir hann á að í skýrslunni frá árinu 2015 sé litið til Norðurlandanna þar sem eru skýrari skil á milli atvika þar sem þarf annars vegar á rannsókn embætti landlæknis að halda og hins vegar rannsókn lögreglu. „Hér hefur þetta oft verið þannig að þessar rannsóknir fara á sama tíma af stað sem gerir alla óörugga til lengri tíma.“ 

Aðspurður segir Willum að þetta muni ekki koma til með að hafa áhrif á rétt fólks til skaðabóta. Undirstrikar hann þá að þetta sé fyrst og fremst gert til að gera starfsumhverfi heilbrigðisstarfsfólks öruggara. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert