Allt bendir til berklasmits hér á landi

Már Kristjánsson, yf­ir­lækn­ir á smit­sjúk­dóma­deild Land­spít­ala.
Már Kristjánsson, yf­ir­lækn­ir á smit­sjúk­dóma­deild Land­spít­ala. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Már Kristjánsson, yf­ir­lækn­ir á smit­sjúk­dóma­deild Land­spít­ala, staðfestir í samtali við mbl.is að allt bendi til þess að einstaklingur hafi greinst með berkla hér á landi. 

„Þetta lítur út fyrir að vera berklar og það er byrjað að meðhöndla einstaklinginn líkt og þetta séu berklar, en við erum ekki búin að fá það alveg endanlega staðfest,“ segir Már. 

Um er að ræða einstakling af erlendum uppruna sem er nú í einangrun í því húsnæði sem hann dvelur í. 

Er hann þá ekki mikið veikur fyrst hann er ekki á spítala?

„Það er gildishlaðið orð. Að vera með okkar berkla eru mikil veikindi en það krefur þig ekki endilega um að vera á spítala.“

Verður í nokkrar vikur í einangrun

Inntur eftir því hversu lengi einstaklingurinn muni þurfa vera í einangrun segir Már það vera erfitt að segja til um. 

Einstaklingurinn þarf að vera hættur að sýna ákveðin einkenni sem geti tekið mislangan tíma. 

„Það fer eftir hvert hið endanlega ónæmi er, hvort þetta er virkilega fjölónæmt eða ekki og ef þetta er ekki fjölónæmt þá tekur þetta yfirleitt stuttan tíma en alltaf eina til þrjár vikur.“

Fjölónæm­ir berkl­ar hafa nokkr­um sinn­um komið upp hér á landi en þeir eru ónæm­ir fyr­ir hefðbundn­um berkla­lyfj­um og eru vax­andi vanda­mál í heim­in­um. Um er að ræða al­var­leg­an sjúk­dóm sem erfitt og kostnaðarsamt er að meðhöndla.

Er hætta á að aðrir séu í smithættu?

„Það er alltaf ákveðin áhætta. Það er fylgst með fólkinu sem hefur verið útsett hvort það tekur einkenni,“ segir Már og bætir við að hann hafi ekki tölu á hversu stór hópur það sé, en að það sé hópur fólks.

mbl.is