Atlaga að íslenskum fjölmiðlum

Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar.
Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar. mbl.is/RAX

„Þetta er enn eitt dæmið um það hvernig er verið að hygla erlendum fjölmiðlum og samfélagsmiðlum, sem bera enga samfélagslega ábyrgð gagnvart íslenskum neytendum og greiða enga skatta, í stað íslenskra fjölmiðla sem eru með vandað og ritskoðað íslenskt efni.“ Þetta segir Heiðar Guðjónsson, framkvæmdastjóri Sýnar, um nýsamþykkt frumvarp Willums Þór Þórssonar heilbrigðisráðherra um breytingar á lögum um rafrettur, sem felur í sér að allar nikótínvörur falla undir lögin.

Breytingin á lögunum hefur þau áhrif að nú er bannað að auglýsa nikótínvörur á borð við nikótínpúða. Missa margir fjölmiðlar því tekjur sem þeir hafa til þessa fengið af þess háttar auglýsingum.

Í samtali við Morgunblaðið segir Heiðar þetta hamla frelsi fjölmiðla og möguleikum þeirra til að afla tekna. „Við erum í samkeppni við alþjóðlega fjölmiðla þar sem eru engin svona bönn og því þykir mér þetta ósanngjarnt,“ segir hann og bendir á að íslenskir fjölmiðlar borgi skatta og sinni samfélagslegri ábyrgð með stuðningi við íslenska tungu og menningu á Íslandi sem að erlendir fjöl- og samfélagsmiðlar geri ekki.

Að hans mati ætti frekar að herða lög sem varða samfélagsmiðla og aðra erlenda fjölmiðla. „Þetta er enn eitt dæmið um það að íslensk stjórnvöld eru ekki að hugsa um hag íslenskra fjölmiðla,“ segir Heiðar og bendir á að þetta sýni fram á að stjórnvöld átti sig ekki á því að íslenskir fjölmiðlar eru í alþjóðlegri samkeppni.

Spurður hvort Sýn sjái fram á einhvers konar tap vegna þessara breytinga segir Heiðar að íslenskir fjölmiðlar í heild sinni tapi á þessu. Nýju lögin undirstriki í raun skilningsleysi stjórnvalda í garð íslenskra fjölmiðla.

Á erlendum samfélagsmiðlum

Hafliði Breiðfjörð Guðmundsson, framkvæmdastjóri Fótbolti.net, segir breytinguna fela í sér atlögu gegn íslenskum fjölmiðlum.

Hafliði Breiðfjörð framkvæmdastjóri Fótbolta.net.
Hafliði Breiðfjörð framkvæmdastjóri Fótbolta.net. mbl.is/Eggert

Að mati Hafliða hefur samþykki frumvarpsins fyrst og fremst áhrif á fjölmiðla, þar sem nikótínvörur munu enn vera auglýstar hér á landi en í stað þess að vera auglýstar á fjölmiðlum munu þær verð auglýstar á samfélagsmiðlum og öðrum stöðum þar sem eftirlit er ekki jafn mikið. Bendir hann á að tekjurnar sem fást af auglýsingum af nikótínvörum færist því frá innlendum aðilum og yfir til erlendra stórfyrirtækja á borð við Google, Meta og Twitter.

„Nú þegar okkur hefur verið bannað að auglýsa þessa nikótínpúða munu auglýsingarnar færast yfir á samfélagsmiðla sem eru á íslenskum auglýsingamarkaði en þurfa ekki að fara eftir íslenskum lögum,“ segir Hafliði. Á vefsíðum samfélagsmiðla á Íslandi er oft hægt að sjá áfengi eða fjárhættuspil auglýst þrátt fyrir að það sé bannað samkvæmt lögum á Íslandi. Nefnir Hafliði að þessar vörur sjáist ekki auglýstar hjá íslenskum fjölmiðlum.

Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »