Farþegi hringdi á Neyðarlínuna er slysið varð

Flugslysið varð 3. febrúar.
Flugslysið varð 3. febrúar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Rannsóknarnefnd samgönguslysa hefur gefið út bráðabrigðaskýrslu um flugslysið sem varð í Þingvallavatni í febrúar. Þar segir meðal annars að engin merki bárust frá neyðarsendi flugvélarinnar og að einn farþegi hafi hringt á Neyðarlínuna akkúrat er slysið varð.

Í skýrslunni segir að vélinni var flogið frá Reykjavík, yfir Hellisheiði og Ölfusárósa, meðfram suðurströndinni að Þjórsárósum og svo til norðvesturs yfir Grímsnes.

Því næst var flugvélinni flogið vestan Úlfljótsvatns og stefnan tekin á Ölfusvatnsvík í sunnanverðu Þingvallavatni þar sem hún hrapaði ofan í vatnið. 

„Heyra mátti í einhverjum í neyð“

„Hljóð á myndskeiðum sem tekin voru um borð í flugvélinni, um það leyti þegar hún var að koma inn að Ölfusvatnsvík, gefur til kynna að afl hafi verið á hreyflinum. Á einu myndskeiðinu heyrist þegar afl minnkar á hreyflinum og flugvélin lækkar í kjölfarið flugið niður að vatnsyfirborðinu.“

Þá segir að á myndskeiði vélarinnar sést vélin lækka flugið í átt að vatninu. 

„Því næst beygir flugvélin til vinstri (til vesturs) og lækkar í kjölfarið flugið enn frekar að vatninu. Flugvélin virðist fljúga í mjög lítilli hæð yfir vatninu, í um 7 sekúndur, áður en hún hafnar í því.“

Eins og áður segir barst ekki merki frá neyðarsendi fyrir slysið en Neyðarlínunni barst nokkurra sekúndna símtal klukkan 11:51 er slysið átti sér stað.

„Ekki voru nein greinileg samskipti í símtalinu, en heyra mátti í einhverjum í neyð. Rakning á símtalinu leiddi í ljós að það barst úr síma eins farþegans.“

Voru líklega ekki í sætisbeltum

Þá segir í skýrslunni segir að eftir að flugvélin fannst 6. febrúar fundust fjögur lík á botni Þingvallavatns 56-130 metrum suður af flugvélinni. Um borð í vélinni voru flugmaðurinn Haraldur Diego, ásamt þremur erlendum ferðamönnum frá Bandaríkjunum, Belgíu og Hollandi.

Erfiðar aðstæður voru til leitar í ísköldu Þingvallavatni eftir flugslysið …
Erfiðar aðstæður voru til leitar í ísköldu Þingvallavatni eftir flugslysið en fjarstýrður kafbátur var notaður í aðgerðunum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Líkin náðust upp úr Þingvallavatni þann 10. febrúar 2022 og var staðfest að um væri að ræða þá aðila sem höfðu verið um borð í flugvélinni.“

Í lok skýrslunnar segir að rannsóknin hafi leitt í ljós neyðarsendir flugvélarinnar var virkur og að farþegar í aftursætum voru líklega ekki í sætisbeltum þegar slysið átti sér stað.

Þá segir einnig að hvorki flugmaður né farþegi í framsæti notuðu axlarólar sætisbelta og voru þær frágengnar ofan hurða. Pakkningar utan um björgunarvesti voru óopnaðar.

Áframhaldandi rannsókn mun meðal annars fela í sér að greina gögn úr tækjabúnaði sem fannst í vélinni og greina afhverju merki bárust ekki frá neyðarsendinum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert