Verst fyrir þá viðkvæmustu

Margrét Valdimarsdóttir, doktor í afbrotafræði og dósent í lögreglufræði við …
Margrét Valdimarsdóttir, doktor í afbrotafræði og dósent í lögreglufræði við HA. Ljósmynd/Aðsend

Margrét Valdimarsdóttir, doktor í afbrotafræði og dósent í lögreglufræði við HA, segir að handtökur lögreglu og haldlagning á fíkniefnum á dögunum muni hafa áhrif á markaðinn til skemmri tíma. Magnið sé svo svakalegt að óhjákvæmilega hljóti að draga tímabundið úr framboði með tilheyrandi verðhækkunum. Það muni þó fyrst og fremst hafa áhrif á þá sem neyta fíkniefna af og til sér til skemmtunar. Þeir komi án efa til með að draga úr sinni neyslu, alltént um stund.

„Það er vel að merkja mun stærri hópur en langt leiddir fíklar sem munu auðvitað halda uppteknum hætti enda háðir efnunum andlega og líkamlega. Fyrir þann hóp hefur þetta skerta framboð bara meiri eymd í för með sér. Því miður. En eins og við þekkjum beitir þessi hópur öllum tiltækum ráðum til að komast yfir næsta skammt. Ég ítreka að þetta er ekki stór hópur en hann er eðli málsins samkvæmt viðkvæmastur,“ segir Margrét.

Mun fljótt ná jafnvægi

Helgi Gunnlaugsson, prófessor í félagsfræði við HÍ og doktor í félags- og afbrotafræði, á ekki von á langvarandi áhrifum vegna téðra aðgerða. „Þetta nýja mál mun vafalítið hafa tímabundin áhrif á markaðinn en mín skoðun er sú að þau muni ekki vara lengi. Markaðurinn mun fljótt ná jafnvægi aftur.“

Hann segir ýmislegt hægt að læra af þjóðum sem séu frjálslyndari gagnvart fíkniefnum, eins og Hollendingum. „Umburðarlyndið er meira þar gagnvart neyslu vægari efna en á móti kemur að Hollendingar eru að haldleggja einna mest af fíkniefnum allra þjóða í Vestur-Evrópu; þeir eru mjög harðir gagnvart ólöglegri sölu og dreifingu.“

Nánar er fjallað um stöðuna á íslenska fíkniefnamarkaðinum í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert