„Við erum bara mjög aftarlega“

Formaður Læknafélagsins hefur áhyggjur af stöðunni.
Formaður Læknafélagsins hefur áhyggjur af stöðunni. mbl.is/Kristinn Magnússon

Steinunn Þórðardóttir, formaður Læknafélags Íslands, kveðst hafa gríðarlegar áhyggjur af ástandinu á Landspítalanum. „Maður á bara erfitt með að treysta á að hægt sé að tryggja öryggi sjúklinga við þessar aðstæður, þessa miklu manneklu og álag. Læknarnir á bráðamóttökunni hafa undanfarin sumur átt mjög erfitt með að fá sín lögbundnu frí og ég held að þetta hafi aldrei verið verra heldur en núna,“ segir hún í samtali við Morgunblaðið.

Læknafélagið hafi áhyggjur af því að starfsfólk sem vinnur undir gríðarlegu álagi nái ekki að taka út sitt frí, sem sé einnig hugsað sem hvíldartími. „Starfið krefst þess að þú sért algjörlega með allt upp á hundrað prósent og til þess þarf fólk að vera úthvílt.“ Segir hún skort á legurýmum vera helsta vandann hvað varðar stöðuna á bráðamóttökunni. „Bráðamóttakan getur ekki vísað neinum frá, eðli máls samkvæmt, og þá náttúrulega birtist þessi stífla og skortur á úrræðum í kerfinu langmest þar.“

Læknar á bráðamóttökunni benda á að þeir geti vel sinnt bráðaþjónustu, það sé ekki vandamálið. „Það sem er að gerast á bráðamóttökunni er að þú ert með meira en heila legudeild, jafnvel tvær, þar sem mjög veikt fólk liggur inni og kemst ekkert áfram. Það fyllir auðvitað alla ganga og öll herbergi. Vandinn er skortur á legurýmum og öðrum úrræðum,“ segir hún. „Þetta er risastórt verkefni og ég held að starfsfólkið á bráðamóttökunni sé fyrst og fremst að kalla eftir því að fá að sinna sínu hlutverki, sem er bráðamóttökuþjónusta og þau eru algjörlega í stakk búin til þess, það er bara þessi mikla stífla.“

Steinunn bendir á að þörf sé á úrræðum á fleiri stöðum. „Læknafélagið fór hringinn í kringum landið í maí og við sáum að ástandið er erfitt nánast alls staðar á þeim stöðum sem við heimsóttum. Það er ekkert loft í þessu kerfi. Við sáum ekkert í fljótu bragði hver ætti að geta gripið boltann frá bráðamóttökunni til að létta undir með henni. Kraginn er til dæmis mjög illa mannaður og bráðamóttakan á Selfossi er algjörlega sprungin. Það liggur í augum uppi að þetta kerfi er bara svelt.“

Nýr spítali eigi að vera tilbúinn

Segir Steinunn að nýr Landspítali hefði átt að vera löngu tilbúinn. „Við erum með allt of fá legurými og við höfum miklar áhyggjur af framtíðinni varðandi nýja spítalann. Þessi spítali ætti auðvitað að vera löngu kominn og það hefði í rauninni átt að vera byrjað að byggja nýjan, ef maður ætlar að bregðast við þörfinni. Það spretta hér upp bankar og hótel en þessi spítali lætur bíða eftir sér og okkur sárvantar hann. Ég myndi vilja sjá hann klárast og að við förum beint að huga að næsta.“

Nánar er rætt við Steinunni í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »