Með umfangsmestu aðgerðum seinni ára

Kafarar sérsveitarinnar leita að vélinni í Þingvallavatni.
Kafarar sérsveitarinnar leita að vélinni í Þingvallavatni. mbl.is/Ari

Aðgerðirnar við Þingvallavatn, þegar flugvél sem brotlent hafði í vatninu var sótt, voru með þeim umfangsmestu í sögu köfunardeildar sérsveitar ríkislögreglustjóra og annarra viðbragðsaðila. Yfir þúsund manns komu að aðgerðunum með einhverjum hætti og mikið frost gerði köfurunum verkefnið strembið. Þrjár sveitir kafara komu að aðgerðinni og fjórum sinnum þurfti að fara út á vatnið til að sækja vélina og þá sem í henni voru.

Haldið út á Þingvallavatn, þar sem talið var að vélin …
Haldið út á Þingvallavatn, þar sem talið var að vélin var. mbl.is/Kafarasveit RLS


Lárus Kazmi, fagstjóri köfunar hjá ríkislögreglustjóra og sérsveitarmaður, kom að skipulagi rannsóknarinnar og fór í gegnum ferlið með blaðamanni Morgunblaðsins og mbl.is. Þar sagði hann frá þeim rúmlega mánaðarlanga undirbúningi sem átti sér stað frá því að vélin hvarf af ratsjám allt þar til vélinni var náð upp úr Þingvallavatni.

Leitin hófst

Hinn 3. febrúar hófst leit að flugvélinni TF-ABB, sem ekki hafði spurst til í nokkrar klukkustundir eftir að hún lagði af stað frá Reykjavíkurflugvelli. Hafði vélin verið í útsýnisflugi yfir Suðurlandi en um borð var afar reyndur flugmaður, Haraldur Diego, ásamt þremur erlendum ferðamönnum. Hafði samband við vélina rofnað rétt fyrir hádegi og hóf þyrla Landhelgisgæslunnar leit tæpum tveimur klukkustundum seinna. Björgunarsveitir hófu leit að vélinni í kringum Þingvallavatn seinna um daginn og tóku um þúsund sjálfboðaliðar þátt í leitinni en vélin fannst svo seint daginn eftir. Höfðu þá borist vísbendingar úr farsímagögnum sem gáfu til kynna að vélin hefði lent í Þingvallavatni.

Kort/mbl.is


Í samráði við lögregluna á Suðurlandi fóru nokkrir kafarar úr kafarahópi sérsveitar ríkislögreglustjóra að Þingvöllum. Fannst vélin á botni vatnsins laust fyrir klukkan ellefu kvöldið 4. febrúar.
„Á Þingvöllum var mikill fjöldi björgunaraðila og margar ábendingar bárust. Við könnuðum svæðið með því að nota dróna, þyrlu, báta, fjarstýrðan mælingabát frá Sjótækni, heimasmíðaðan sidescan-sónar og fleira. Að lokum var það olíubrák sem kom viðbragðsaðilum að réttum stað. Á meðal björgunarmanna á vettvangi var Eyjólfur Bjarnason frá Teledyne í Kópavogi. Eyjólfur var með sjálfstýrt Gavia-djúpfar sem kafarahóparnir hafa áður notast við með mjög góðum árangri. Gavia staðsetti flugvélina seint á föstudagskvöldi eftir umfangsmikla leit. Fram að þessu hafði Landhelgisgæslan stýrt leitinni þar sem hún sneri að týndu loftfari. Þegar búið var að staðsetja flugvélina tók lögregla aftur við vettvangi,“ segir Lárus.

Sáu að vélin var mannlaus

Daginn eftir að vélin fannst var haldinn samráðsfundur á milli viðbragðsaðila þar sem farið var yfir stöðuna. Kafarahópur sérsveitar fékk þá samþykki fyrir því að senda neðansjávardróna með myndavél að flugvélinni til þess að kanna ástand hennar. Köfunarþjónusta Sigurðar er sjálfstæður verktaki sem á hentugan neðansjávardróna fyrir verkið og köfunarhópur sérsveitar fékk hann sér til aðstoðar og fór með hann út á vatn seint sama dag.

Ölfusvatnsvík þar sem vélin var hífð á land. Inntak Steingrímsstöðvar …
Ölfusvatnsvík þar sem vélin var hífð á land. Inntak Steingrímsstöðvar í bakgrunni. mbl.is/Kafarasveit RLS


Lárus segir notkun drónans hafa heppnast vel. „Myndefnið var gott og skilaði því að við sáum að flugvélin var mannlaus. Fram að þessum tímapunkti hafði verið ákveðið að hífa flugvélina upp eins og hún var en þarna þurfti kafarahópurinn, í samráði við lögregluna á Suðurlandi, að endurhugsa og forgangsraða upp á nýtt.“

Hætt við á síðustu stundu

Aftur var haft samband við Eyjólf hjá Teledyne sem sendi Gavia-djúpfarið út til leitar snemma daginn eftir, 6. febrúar. Djúpfarið staðsetti nokkuð fljótlega fjórar manneskjur í vatninu. Um leið og fyrsti einstaklingurinn fannst hélt kafarahópurinn, ásamt köfurum frá Landhelgisgæslunni, að Þingvöllum. Mennirnir fjórir voru á þónokkru dýpi, sá sem var grynnst var á 35 m dýpi og sá sem var dýpst á 42 m.

Neðansjávardróni með griparmi kom sér vel við leit á flugvélinni.
Neðansjávardróni með griparmi kom sér vel við leit á flugvélinni. mbl.is/Kafarasveit RLS


Lofthiti á Þingvöllum var um -14°C og hitastig vatns var 0,2°C, það var vont veður í aðsigi og tíminn því mjög knappur. Ákveðið var að reyna að sækja einn mannanna áður en veðrið skylli á, en spáð var slæmu veðri. Notast yrði við aðflutt loftkerfi frá Landhelgisgæslunni, sem virkar á þann hátt að kafarinn fær loft í gegnum naflastreng sem liggur upp á yfirborð. Sömuleiðis eru fjarskipti og myndavél sem ná upp á yfirborð. Einn kafari frá ríkislögreglustjóra og einn frá Landhelgisgæslunni bjuggu sig til köfunar og haldið var út á bátum frá björgunarsveitum.


Þegar báturinn var kominn á réttan stað var akkeri kastað en fljótt kom í ljós að bætt hafði verulega í vind og ekki væri hægt að uppfylla ýtrustu öryggiskröfur, þess vegna var ákveðið að hætta við köfunina á síðustu stundu.

Björgunarsveitir víða af landinu tóku þátt í leitinni, sem og …
Björgunarsveitir víða af landinu tóku þátt í leitinni, sem og þyrlur Landhelgisgæslunnar. mbl.is/Óttar


Næstu daga var veður vont og tíminn nýttur í undirbúning og skipulag. Með hjálp starfsmanna Rannsóknarnefndar samgönguslysa fékkst tækifæri til þess að fara að flugskýli við Reykjavíkurflugvöll og skoða samskonar flugvél. Allir þeir köfunarhópar sem kæmu að verkefninu komu í flugskýlið og kynntu sér flugvélina.

Aftur farið að Þingvöllum

Stjórn málsins í heild var í höndum lögreglunnar á Suðurlandi en útfærsla og framkvæmd verkþáttanna sem sneru beint að vinnu í vatninu var í höndum kafarahópa sérsveitarinnar, Landhelgisgæslunnar og Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins. Eftir mikinn undirbúning og samráð var haldið aftur að Þingvöllum 9. febrúar í þeim tilgangi að ná upp mönnunum fjórum og flugvélinni.

Grindin sem var smíðuð til að varðveita sönnunargögn sem kafarar …
Grindin sem var smíðuð til að varðveita sönnunargögn sem kafarar tóku úr vélinni á meðan hún var í vatninu. mbl.is/Kafarasveit RLS


Auk kafaranna voru fulltrúar frá lögreglunni á Suðurlandi, Rannsóknarnefnd samgönguslysa, köfunarlæknir frá Landspítalanum og Árni Kópsson, verktaki með sérþekkingu á neðansjávarvinnu. Gisti allur hópurinn í skátamiðstöðinni við Úlfljótsvatn þar sem farið var ítarlega yfir plön næsta dags. Planið sem var kynnt gekk út á það að senda neðansjávardróna niður á dýpi sem myndi staðsetja fyrsta manninn, næst myndu tveir kafarar fara niður í einu með sérstakan líkpoka meðferðis. Þegar kafararnir kæmu niður á botn kæmu þeir manninum fyrir í líkpokanum og lokuðu tryggilega, næst yrði líkpokinn hífður upp á yfirborðið þar sem tekið yrði við honum. Þetta var æft vel og hópurinn var vel undirbúinn fyrir verkefnið sem beið daginn eftir.

Mönnunum náð upp

Morguninn eftir, 10. febrúar, var haldinn stöðufundur. Vatnið hafði lagt og mikill ís var sýnilegur og þótti ljóst að ekki væri hægt að kafa. Hitastig var frá -13 til -15 og hætta var á hreyfingu íss fyrir ofan kafara auk þess sem hætta var á að köfunarbúnaðurinn virkaði ekki sem skyldi í frostinu. Farið var yfir hvaða möguleikar væru í boði, köfunarhóparnir höfðu áður unnið með Árna Kópssyni og þekktu vel til hæfni hans við notkun á stórum neðansjávardróna sem hann á og er með áföstum griparmi. Ákveðið var að láta reyna á notkun drónans fyrst ekki var hægt að kafa með öruggum hætti.

Teiknuð skýringarmynd af vélinni á botni Þingvallavatns.
Teiknuð skýringarmynd af vélinni á botni Þingvallavatns. mbl.is/Kafarasveit RLS


Til þess að komast út á réttan stað á vatninu þurfti fjóra báta frá björgunarsveitum til þess að brjóta ísinn á undan hópnum. Ekki nóg með það að þurfa að brjóta leiðina út, heldur þurfti að halda vatninu í kringum vinnusvæðið ófrosnu og þurftu bátarnir því að vera á siglingu og brjóta ís allan tímann á meðan vinnan fór fram.

Vinna með neðansjávardrónann gekk fumlaust fyrir sig og á aðeins fjórum klukkustundum náðist að staðsetja alla mennina og færa upp á yfirborð.
Daginn eftir, 11. febrúar, var haldið aftur niður að Þingvallavatni til að freista þess að sækja flugvélina. Þá var vatnið nánast alveg frosið og ljóst að nær ómögulegt væri að sækja flugvélina í þessum aðstæðum.

Beðið til vors

Lögreglan á Suðurlandi fór reglulegar eftirlitsferðir að vatninu til að kanna aðstæður en það var ekki fyrr en 22. apríl sl. sem gluggi opnaðist til þess að sækja flugvélina. Þann dag fóru viðbragðsaðilar aftur út þangað sem flugvélin hafði verið staðsett.

Skýringarmynd af vélinni á leið undir prammann sem sigldi með …
Skýringarmynd af vélinni á leið undir prammann sem sigldi með hana í land. mbl.is/Kafarasveit RLS


Notast var við tvo vinnupramma til þess að tryggja nægt og öruggt vinnupláss. Gæslan sá um að koma flugvélinni upp og fóru tveir kafarar frá LHG niður að flugvélinni og festu í hana sérútbúnar stroffur, næst var flugvélin spiluð upp undir vinnuprammann. Köfunin gekk mjög vel og um 25 mínútum eftir að köfunin hófst var flugvélin komin á um 6 metra dýpi undir vinnuprammanum. Þá þurfti að ljósmynda og festa flugvélina tryggilega undir prammann fyrir flutning, en flugvélin var um 1,5 km frá landi.

Tímalína aðgerða köfunardeildar sérsveitarinnar.
Tímalína aðgerða köfunardeildar sérsveitarinnar.


Næsti áfangi fólst í því að flytja flugvélina að landi og það gekk hægt en vel. Flugvélinni var slakað niður á botn við land á fyrirfram ákveðnum stað við inntakið að Steingrímsstöð þar sem aðkoma að vatninu var betri. Þar tók við rannsóknarvinna sem tók drjúgan tíma.
Almennt er það þannig að raftæki sem liggja í vatni þurfa að skila sér á land í sama vatni. Vegna þessa þurfti að útbúa sérstaka kerru sem allt innihald flugvélarinnar færi í. Í kafi þurfti að grunnflokka gögnin og setja á réttan stað, tryggja að raftæki varðveittust sem best, og blaut skjöl og pappíra þurfti að verja á sérstakan máta. Auk þess voru stjórntæki flugvélarinnar ljósmynduð í bak og fyrir sem og ytra byrði vélarinnar.

Mikil rannsóknarvinna

Þarna skipti samvinna rannsakenda miklu máli en mikið samráð var haft við lögreglumenn frá rannsóknardeildinni á Selfossi, tæknideild lögreglu og Rannsóknarnefnd samgönguslysa. Þessir hópar hafa allir mismunandi áherslur sem kafararnir þurftu að vinna úr. Grunnrannsóknarvinnan tók um þrjár klukkustundir og þegar henni lauk var sönnunargagnakerran hífð í land og öll gögn afhent lögreglunni á Suðurlandi.

Flugvélin var hífð upp úr vatninu 22. apríl.
Flugvélin var hífð upp úr vatninu 22. apríl. mbl.is/Kristinn Magnússon


Næst var flugvélin sjálf hífð á land og þar með lauk þessum tæplega þriggja mánaða verkþætti kafarahópsins og við tók mikil skýrsluvinna. Verkefnið í heild var eitt stórt samvinnuverkefni milli lögregluembætta og annarra viðbragðsaðila, kafarahópa, björgunarsveita, rannsóknarnefndar samgönguslysa, verktaka og allra þeirra sem komu að aðgerðinni.
„Það var í raun ótrúlegt hvað þetta gekk vel og eftir áætlun þarna 22. apríl. Allir sem komu að aðgerðinni þekktu sitt hlutverk og voru vel undirbúnir. Allir aðilar og sjálfboðaliðar eiga hrós skilið fyrir sín störf. Skipulagningin var frábær og þarna sést hvað þessar deildir eru mikilvægar,“ segir Lárus um aðgerðirnar.

Átta kafarar í Delta-hópnum

Sérsveitin, sem einnig er kölluð Víkingasveitin, gegnir tveimur hlutverkum. Annars vegar grunnhlutverkinu sem snýr að því að starfrækja útkallsbíl og mæta í þjálfun. Í þessu felast m.a. handtökur þar sem vænta má vopnaðrar mótspyrnu, öryggisgæsla erlendra þjóðhöfðingja, viðbragð við sprengjum og sprengjuhótunum og aðgerðir vegna hryðjuverka. Hins vegar eru allir sérsveitarmenn með sérhæfð hlutverk þar sem hópnum er skipt niður í minni sveitir. Sérhæfingarnar skiptast í sig-, rof-, riffilmenn, kafara og sprengjusérfræðinga.

Vélin í Ölfusvatnsvík þar sem hún var rannsökuð.
Vélin í Ölfusvatnsvík þar sem hún var rannsökuð. mbl.is/Kafarasveit RLS


Í kafarahópi sérsveitar Ríkislögreglustjóra, sem kallast Delta-hópurinn, eru átta kafarar sem sinna verkefnum sérsveitarinnar á sjó eða vötnum, ásamt því að fylgja rannsóknarskyldu lögreglu neðansjávar. Köfun á vegum lögreglunnar hófst á árunum 1978-1979 og varð til vegna rannsóknarskyldu lögreglu sem segir að lögregla skuli rannsaka slys og aðrar ófarir þótt ekki liggi fyrir grunur um refsiverða háttsemi.

Fyrir alla lögregluna

Hlutverk kafarahópsins byggist á því færa vettvang atviks upp á yfirborð á þann hátt sem veldur sem minnstu raski og varðveita sönnunargögn á sem bestan hátt. Þegar vettvangur, eða viðfangsefnið, er kominn upp á yfirborð tekur rannsóknardeild staðarlögreglu við.
„Við erum í raun köfunarsveit fyrir alla lögregluna og störfum sem framlenging á hverju því embætti sem við aðstoðum. Í stað þess að í hverju lögregluembætti þurfi að vera kafaradeild sinnum við öllum þeim verkefnum sem koma að köfun og tengjast lögreglunni,“ segir Lárus.

Þrír köfunarhópar viðbragðsaðila

Á Íslandi eru starfræktir þrír köfunarhópar viðbragðsaðila og komu þeir allir að aðgerðunum á Þingvöllum. Þessir hópar eru frá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins (SHS), Landhelgisgæslunni (LHG) og Ríkislögreglustjóra (RLS). Haldið er sameiginlegt átta vikna atvinnukafaranámskeið þar sem kafararnir útskrifast með atvinnuköfunarréttindi.
„Þessir þrír hópar kafara þekkjast vel og vinna vel saman. Þó að þeir fari í gegnum sama kafaranámskeiðið eru áherslur hópanna mismunandi og samvinna þeirra felst meðal annars í góðri verkaskiptingu,“ segir Lárus Kazmi við mbl.is.

Rannsókn hafin á flugvélinni á landi.
Rannsókn hafin á flugvélinni á landi. mbl.is/Kafarasveit RLS


„Við förum saman í gegnum námið og þekkjumst því vel. Við lærum sömu handtökin á námskeiðinu og að því loknu förum við að fylgjast með og sérhæfa okkur í mismunandi hlutum. Við erum með lögreglugleraugun á okkur og reynum að einbeita okkur að lögregluþættinum, sömuleiðis einblína hinir köfunarhóparnir á aðra þætti, sem gerir heildina sterkari fyrir vikið,“ segir Lárus um samvinnu hópanna.

Starfa vel saman

Kafarar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins gera út kafarabíl sem er útkallsklár allan sólarhringinn. Eru þeir fyrsta viðbragð í kjölfar slysa. Kafarar hjá Landhelgisgæslunni eru sérhæfðir í flestu sem tengist sprengjuleit og -eyðingu í sjó og höfnum.

Þessir viðbragðshópar kafara starfa vel saman og hafa myndað ákveðna verkaskiptingu sem mátti til að mynda sjá í útkallinu er lífi ungra drengja var bjargað við Óseyrarbryggju í Hafnarfirði. Þá komu kafarar frá SHS fyrstir á vettvang og björguðu drengjunum úr sjónum, en sá hópur er viðbúinn allan sólarhringinn. Því næst tóku kafarar sérsveitarinnar við og hófst þá neðansjávarrannsókn á vettvangi, rannsókn á því hvernig slysið hefði borið að. Að því loknu tóku kafarar frá Gæslunni við og sáu um að koma ökutækinu heilu upp á yfirborð.

Kafarar Landhelgisgæslunnar að störfum.
Kafarar Landhelgisgæslunnar að störfum. mbl.is/Golli
Sérsveit ríkislögreglustjóra.
Sérsveit ríkislögreglustjóra. mbl.is/​Hari
Kafarar að störfum í Hafnarfjarðarhöfn í janúar 2020, en sveitir …
Kafarar að störfum í Hafnarfjarðarhöfn í janúar 2020, en sveitir viðbragðsaðila áttu þar gott samstarf við erfiðar aðstæður. mbl.is/Kristinn Magnússon
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert