Með dóm á bakinu fyrir ofbeldisbrot

Maðurinn var handtekinn þann 4. júní grunaður um að hafa …
Maðurinn var handtekinn þann 4. júní grunaður um að hafa orðið manni að bana. mbl.is/Sólrún

Karlmaður á þrítugsaldri, sem handtekinn var, grunaður um að hafa orðið öðrum manni að bana í Barðavogi þann 4. júní síðastliðinn, er með dóm á bakinu frá árinu 2020 fyrir ofbeldisbrot og brot á barnaverndarlögum fyrir að hafa veist með ofbeldi, yfirgangi og vanvirðandi háttsemi að ungum dreng. Þetta herma heimildir mbl.is.

Árásin var algjörlega tilefnislaus, en þetta var í fyrsta skipti sem maðurinn gerðist sekur um refsivert brot. Atvikið átti sér stað í október árið 2019. Maðurinn var þá enn á barnsaldri, eða rétt tæplega 18 ára.

Hann fékk 30 daga fangelsisdóm sem var skilorðsbundinn til tveggja ára, en dómur var kveðinn upp 24. júní árið 2020. Maðurinn var því enn á skilorði þegar hann var handtekinn vegna manndrápsins.

Einar Guðberg Jónsson, lögreglufulltrúi hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, staðfestir í samtali við mbl.is að maðurinn hafi fengið skilorðsbundinn dóm fyrir minni háttar líkamsárás árið 2020. Hann hafi hins vegar ekki átt langa sögu hjá lögreglu.

Líklega í haldi fram að dómtöku

Einar gerir ráð fyrir að lögregla krefjist áframhaldandi gæsluvarðhalds yfir manninum, en hann var úrskurðaður í rúmlega þriggja vikna gæsluvarðhald á grundvelli almanna- og rannsóknarhagsmuna og rennur það út 1. júlí.

Hann telur líklegt að reynt verði að halda manninum í gæsluvarðhaldi þangað til málið fer til héraðssaksóknara og það verður dómtekið.

Aðpurður segir Einar rannsóknina í fullum gangi og henni miði vel. Nú sé verið að bíða eftir ýmsum gögnum; meðal annars skýrslu frá réttarmeinafræðingi og læknagögnum. „Það er það sem stjórnar mest ferðinni. Við erum vel á veg komin með okkar vinnu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert