Bein kjaraskerðing fyrir heimilin

Drífa Snædal, forseti ASÍ, bjóst við minni hækkun stýrivaxta.
Drífa Snædal, forseti ASÍ, bjóst við minni hækkun stýrivaxta. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands, bjóst ekki við jafn mikilli hækkun stýrivaxta og raun bar vitni, en peningastefnunefnd Seðlabankans ákvað í dag að hækka stýrivexti um eitt prósentustig.

„Mér finnst þetta mjög slæmt, hvort sem þetta er nauðsynlegt eða ekki. Þetta kemur auðvitað niður á heimilunum. Við sjáum að venjuleg heimili eru að taka á sig gríðarlegar hækkanir þessa dagana, sem er bein kjaraskerðing,“ segir Drífa í samtali við mbl.is.

„Þetta er að gerast um heim allan og maður sér þolinmæði vinnandi fólks um heim allan vera á þrotum. Þetta er að túlkast yfir í mikil átök á vinnumarkaði hvort sem það er hérlendis eða erlendis.“

Heldur alltaf að komið sé að hámarki

Stýrivextir voru síðast hækkaðir þann 4. maí síðastliðinn og þá líka um eitt prósentustig. Því hafa stýrivextir hækkað um tvö prósentustig á tveimur mánuðum. Þá var hækkunin nú meiri en hagfræðideild Landsbankans spáði í síðustu viku, en spáð var hækkun um 0,75 prósentustig.

„Maður heldur alltaf að það sé komið að einhverju hámarki en þetta heldur áfram, sem er afar slæmt,“ segir Drífa.

Hlutverk verkalýðshreyfingarinnar sé núna mikilvægara en oft áður. „Við þurfum að tryggja að lífskjör rýrni ekki og sækja fram um bætt lífskjör.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert