Foreldrar látnir vita en gátu ekki sótt börnin

Hér má sjá leikskólann Víðivelli á Miðvangi en íbúð byssumannsins …
Hér má sjá leikskólann Víðivelli á Miðvangi en íbúð byssumannsins snýr að leikskólanum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Leikskólanum Víðivöllum var lokað í dag vegna skotárásar sem átti sér stað við Miðvang í Hafnarfirði í morgun, en þá voru 17 börn mætt og 21 starfsmaður til vinnu. Þeim var sagt að halda sig innandyra þegar lögregla kom á staðinn og var lokað fyrir umferð að skólanum. 

Að sögn Árdísar Ármannsdóttur, samskiptastjóra Hafnarfjarðarbæjar, var foreldrum sem áttu börn á leikskólanum strax tilkynnt um ástandið en þeir gátu þó ekki komið og sótt börnin sín vegna viðbúnaðar lögreglu. Maður á sjötugsaldri var handtekinn um hádegi í dag vegna gruns um að hafa skotið á bíl úr íbúð sinni við Miðvang.

Gluggi í íbúð byssumannsins snýr að leikskólanum og voru því allar mannaferðir í kringum leikskólann bannaðar af lögreglu. Árdís tekur þó fram að börnunum hafi liðið vel þrátt fyrir allt og það sé starfsfólkinu að þakka. 

Árdís segir að búið sé að opna fyrir umferð að leikskólanum aftur núna og að foreldrar hafi því getað farið með börnin sín í leikskólann klukkan tvö. Sömuleiðis var þeim foreldrum sem gátu ekki sótt börnin sín á meðan á aðgerðum lögreglu stóð boðið að gera það eftir að lögreglan hafði yfirgefið svæðið.

„Þetta kemur við alla,“ segir Árdís og bætir við að öllum starfsmönnum leikskólans verði boðin áfallahjálp vegna atviksins ef þeir óska eftir því. Segir hún það þá ánægjulegt að málinu hafi lokið vel. 

mbl.is