Reyndi mjög á viðbragðsaðila

Þyrla Gæslunnar flutti konuna til Reykjavíkur.
Þyrla Gæslunnar flutti konuna til Reykjavíkur. Ljósmynd/Guðmundur Freyr Jónsson

Mikið reyndi á viðbragðsaðila eftir að banaslys varð vestan Kúðafljóts í síðustu viku þegar erlendur ferðamaður á sjötugsaldri lést og eiginkona hans slasaðist alvarlega.

Sjúkrabíll flutti konuna til móts við þyrlu Landhelgisgæslunnar, sem lenti austan við Pétursey og flaug með konuna á Landspítalann.

Fram kemur á facebooksíðu lögreglunnar á Suðurlandi, þar sem meðfylgjandi ljósmynd frá einum viðbragðsaðilanna var birt, að samstarf viðbragðsaðila sé lykilatriði til árangurs við björgunaraðgerðir.

Lögreglan stöðvaði umferðina

Oddur Árnason, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Suðurlandi, lýsir aðgerðunum þannig að lögreglan ók á undan sjúkrabílnum til móts við þyrluna og stöðvaði síðan umferðina til að hún gæti lent og sjúkrabíllinn athafnað sig við að færa konuna yfir í þyrluna.

Á ljósmyndinni má sjá þyrlu Gæslunnar og sjúkrabíl frá Heilbrigðistofnun Suðurlands, ásamt lögreglubílum á vettvangi. „Þetta eru bara þrír af fjölmörgum viðbragðsaðilum sem við erum að vinna með á hverjum tíma,“ segir Oddur og nefnir að slökkviliðin frá Vík í Mýrdal og Kirkjubæjarklaustri hafi einnig verið á meðal viðbragðsaðila í umræddu slysi.

Aðspurður segist hann ekki hafa upplýsingar um líðan konunnar. Hann getur heldur ekki greint frá þjóðerni fólksins. 

mbl.is