Sá ekki drengina og annar ók inn í hlið bílsins

Drengirnir voru á rafmagnshlaupahjólum.
Drengirnir voru á rafmagnshlaupahjólum. AFP

Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu barst tilkynning um umferðarslys í Kópavogi laust fyrir klukkan ellefu í gærkvöldi. Þá hafði ökumaður verið á leið yfir gangbraut en ekki séð 15 og 16 ára drengi sem voru einnig á leið yfir gangbrautina á rafmagnshlaupahjólum. Annar drengurinn ók þá inn í hlið bifreiðarinnar. 

Þetta kemur fram í dagbók lögreglu en þar segir að enginn hafi meiðst við uppákomuna. Samt sem áður var forráðamönnum tilkynnt um atvikið. 

Í tvígang stöðvaði lögregla ökumenn í gærkvöldi og í nótt í Kópavogi þar sem þeir voru grunaðir um ölvun við akstur.

Þá var ökumaður einnig stöðvaður í Árbæ í nótt grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna.

mbl.is