Telur vafa um hæfi ekki eiga rétt á sér

Jón Steinar Gunnlaugsson.
Jón Steinar Gunnlaugsson. mbl.is/Kristinn Magnússon

Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómari, telur vafa um hæfi tveggja umsækjenda um stöðu dómara við Mannréttindadómstól Evrópu ekki eiga rétt á sér.

Kjósa átti nýjan íslenskan dómara við dómstólinn á þingi Evrópuráðsins í þessari viku, en hefja verður umsóknarferlið að nýju í ljósi ákvarðana Jónasar Þórs Guðmundssonar og Stefáns Geirs Þórissonar um að draga umsóknir sínar til baka.

„Það er verið að spyrja lögfræðingana hversu vel þeir þekki dómaframkvæmd Mannréttindadómstólsins. Þetta er auðvitað bara viðleitni til þess að kanna að þeir sem koma inn sem nýir dómarar séu búnir að tileinka sér einhverjar lögfræðiaðferðir sem dómstóllinn hefur notað og að mínu áliti er það algjörlega rangt,“ segir Jón Steinar í samtali við mbl.is.

„Nýir dómarar sem koma þarna inn eiga helst ekkert að vita um fordæmi sem dómstóllinn hefur mótað með dómum sínum fram að því. Mér finnst frekar að það ætti að gera þá kröfu að þeir séu alls ekki kunnugir því.

Þetta er að mínu áliti bara aðferð til þess að dómarahópurinn sjálfur fái að ráða því hverjir verða nýir dómarar.“

Ekki fallið í kramið hjá valdhöfum

„Það er alveg útilokað að það geti gengið að sitjandi dómarar stjórni því hverjir veljast nýir inn í hóp dómaranna, en það er það sem er að gerast þarna. Íslendingar eiga ekki að sitja undir þessu, að mínu mati,“ segir Jón Steinar.

„Ég segi bara við þessa tvo íslensku umsækjendur sem hurfu þarna frá að þeir hafi bara orðið fórnarlömb geðþóttavalds og þeir eiga ekki að þurfa að hafa áhyggjur þótt þeir hafi ekki getað fallið í kramið hjá þeim valdhöfum.“

Segir hann íslensku lögfræðingana vera góða og kunna ýmislegt fyrir sér í greininni. „Þeir kunna að lesa textann og þeir hafa þjálfun í því að beita honum í dómsmálum og það er það sem þarf.“

„Það þarf ekki sérfræðiþekkingu í mannréttindum eða neitt slíkt, það þarf bara að kunna almenna aðferðafræði lögfræðinnar og þessir menn hafa sýnt að þeir eru mjög vel færir til þess,“ segir hann að lokum.

mbl.is