Byssumaðurinn vistaður á viðeigandi stofnun

Manninum var ekið inn í dóminn á lögreglubíl.
Manninum var ekið inn í dóminn á lögreglubíl. mbl.is/ Eggert

Maðurinn sem handtekinn var í gær vegna skotárásar í Miðvangi í Hafnarfirði, var leiddur fyrir Héraðsdóm Reykjaness í morgun þar sem hann var úrskurðaður til að sæta vistun á viðeigandi stofnun í fjórar vikur. 

Þetta kemur fram í tilkynningu frá lögreglunni.

Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglu, segir rannsókn málsins miða vel og neitar því að málið sé sérstaklega flókið eða umfangsmikið. 

Hann segir ekki tímabært að gefa upp frekari upplýsingar um málið, hvort maðurinn hafi verið undir áhrifum áfengis, vímuefna eða hvort um geðrof hafi verið að ræða. Hann bendir þó á að viðkomandi hafi verið úrskurðaður á viðeigandi stofnun en ekki í gæsluvarðhald. 

Árásin er rannsökuð sem tilraun til manndráps. Maðurinn, sem grunaður er um að hafa skotið á tvær kyrrstæðar bifreiðar milli fjölbýlishúss og leikskóla, er á sjötugsaldri. Af ummerkjunum á bílnum sem skot hæfði, má leiða líkur að því að um maðurinn hafi notað riffil. 

Vistun á viðeigandi stofnun er hliðstætt úrræði við gæsluvarðhald og þurfa því skilyrði fyrir gæsluvarðhaldi að vera uppfyllt svo unnt sé að úrskurða einstakling í slíka vistun, en úrræðinu er beitt í undantekningartilfellum.

Fréttin hefur verið uppfærð

Honum verður gert að sæta viðeigandi úrræði meðan rannsókn málsins …
Honum verður gert að sæta viðeigandi úrræði meðan rannsókn málsins stendur yfir. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is