Fimmtán mánaða fangelsi fyrir smygl

Maður var í dag dæmdur í héraðsdómi Reykjaness fyrir smygl …
Maður var í dag dæmdur í héraðsdómi Reykjaness fyrir smygl á kókaíni. mbl.is/Ófeigur

Maður var í héraðsdómi Reykjaness dæmdur í 15 mánaða fangelsi fyrir smygl á kókaíni.

Málið var höfðað gegn manninum fyrir stórfellt brot gegn lögum um ávana og fíkniefni, er kemur fram í dómnum. Hann var staðinn að innflutningi á 997,38 grömmum af 83% sterku kókaíni ætluðu til söludreifingar hér á landi.

Maðurinn játaði brot sitt afdráttarlaus fyrir dómi og var tekið tillit til þess þegar refsing var ákveðin.

Hann var dæmdur í fangelsi í fimmtán mánuði, til frádráttar gæsluvarðhaldsvist sem hann sætti frá 7. mars til dagsins í dag.

Ásamt því var kókaínið gert upptækt ásamt Oppo farsíma.

Honum var þá gert að greiða 744.000 krónur af málsvarnarlaunum skipaðs verjanda síns, Oddgeiri Einarssyni lögmanns, en ríkissjóður greiðir þriðjung, eða 372.000 krónur. Manninum var líka gert að greiða málsvarnarlaun verjanda síns, Halldóru Aðalsteinsdóttur lögmanns, 500.000 krónur og aksturskostnað verjanda 33.600 krónur.

Að lokum þurfti hann að greiða annan sakarkostnað 255.223 krónur.

mbl.is