Kemur enn til greina að banna bragðtegundir

Willum Þór Þórsson segir bann gegn bragðtegundum í nikótínvörum enn …
Willum Þór Þórsson segir bann gegn bragðtegundum í nikótínvörum enn koma til greina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra segir það enn koma til greina að banna bragðtegundir í nikótínpúðum og öðrum nikótínvörum þótt að það hafi verið tekið úr ný samþykktu frumvarpi hans um nikótínvörur þar sem að vörurnar voru felldar undir lög um rafrettur. Nú  gilda því sömu reglur um nikótínvörur og rafrettur.

Frumvarpið hefur vakið misjöfn viðbrögð og hafa sumir gagnrýnt það. Til dæmis sagði Guðlaug B. Guðjóns­dótt­ir, fram­kvæmda­stjóri Krabba­meins­fé­lags höfuðborg­ar­svæðis­ins, í samtali við mbl.is að frábært hefði verið að sjá bann við bragðtegundum haldast í frumvarpinu.

Segir Willum ástæðu þess að bann gegn bragðtegundum í nikótínpúðum og öðrum nikótínvörum var tekið úr frumvarpinu um nikótínvörur vera að ekki sé búið að rannsaka nægilega mikið áhrif bragðtegunda í nikótínvörum á heilsu fólks.

Velferðarnefnd þingsins tók þá fram á meðan að meðferð frumvarpsins fór fram fyrir þinginu að ekki væri búið að staðfesta skaðleg áhrif bragðtegunda í nikótínvörum á lýðheilsu með rannsóknum og því ekki nægilega sterkur grunnur til að banna bragðtegundir eins og er.

Bendir hann á að sett séu einhver takmörk fyrir bragðtegundir í rafrettum í núverandi lögum en að þar séu rannsóknir til staðar sem sýna að nammi- og ávaxtabragð í rafrettum höfði sérstaklega til barna og unglinga. Segir hann út frá því að líklegt megi telja að það sama eigi við um nikótínvörur.

Segir hann því koma til greina að skoða það aftur seinna hvort það eigi að banna bragðtegundir í nikótínvörum og að beðið sé eftir niðurstöðum úr rannsóknum. 

Bann myndi kannski ekki ná markmiðinu

Bætir Willum við að önnur ástæða fyrir því að bann gegn bragðtegundum í nikótínvörum var tekið úr frumvarpinu er að það sé núna bannað að selja þessar nikótínvörur til yngri en átján ára og hefði því breytingin kannski ekki þjónað þeim tilgangi sem sóst er eftir með banni gegn bragðtegundum. 

Segir Willum þann tilgang vera að vernda heilsu barna og gera vöruna minna spennandi í augum barna. „Það er átján ára aldurstakmark til að kaupa þessar vörur og þar með hefði þetta kannski ekki þjónað tilgangi sínum. Þar sem að átján ára og eldri eru að kaupa ættu þeir kannski að fá að velja.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert