Lærði íslensku á Kaffibarnum

Silje Beite Løken ásamt Auðuni syni sínum sem er tólf …
Silje Beite Løken ásamt Auðuni syni sínum sem er tólf ára og jafnvígur á frændtungurnar norsku og íslensku eins og móðirin. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Þetta byrjaði með því að ég var að lesa fornmálið heima í Ósló, var þar við nám í norrænum fræðum, nám sem þá hét „nordisk, særlig norsk språk og litteratur“ og þetta var bara kallað nordisk í daglegu tali og þegar maður hafði lokið náminu kallaði maður sig svona óformlega nordist og þá héldu allir að maður væri að segja „nudist“ og að ég væri bara allsber alla daga,“ segir Silje Beite Løken, menningarfulltrúi norska sendiráðsins í Reykjavík, og skellihlær að hugleiðingunni.

Við sitjum á bókasafninu í menningarmiðstöðinni Sølvberget í miðbæ Stavanger, Silje er héðan og við leyfum okkur að kalla erlenda manneskju fornafni í þessu viðtali í krafti þess að hún talar reiprennandi íslensku og er fyrsti íslenskumælandi Stavanger-búinn sem blaðamaður hittir en hann bjó hér í bænum og nágrannabænum Sandnes í samanlegt sex og hálft ár. Viðtalið er tekið við lok ellefu daga hátíðar, Rikssamlingsjubileet, í tilefni þess að 1.150 ár eru (hugsanlega) liðin frá Hafursfjarðarorrustu um þessar mundir.

Silje er jafnframt afkastamikill þýðandi og hefur þýtt allar bækur Arnaldar Indriðasonar sem út hafa komið á norsku auk fjölda annarra íslenskra bókmenntaverka. Meira um það síðar í viðtalinu, við byrjum á því hvað hún var að þvælast til Íslands upphaflega.

Íslenska fyrir erlenda gekk fullhægt

„Í þessu námi voru alls konar möguleikar, Nordplus-styrkir og alls konar, svo ég fór á námskeið í bókamenntafræði við Háskóla Íslands þar sem Dagný Kristjánsdóttir kenndi, mjög flinkur og eftirminnilegur kennari og við vorum þarna hópur frá öllum Norðurlöndunum. Megináherslan var á bókmenntir en einhver íslenskukennsla líka,“ segir Silje af námskeiðinu sem var kennt sumarið 1996.

Einn vænn dreginn úr Laxá í Mývatnssveit í blíðskaparveðri.
Einn vænn dreginn úr Laxá í Mývatnssveit í blíðskaparveðri. Ljósmynd/Aðsend

„Svo fannst mér svo skemmtilegt á Íslandi að ég ákvað að fara aftur,“ segir Silje og erfitt að greina af framburði hennar og kórréttum beygingum að hún sé ekki borin og barnfæddur Íslendingur. „Mér fannst svo gaman að fara á hestbak og náttúran ykkar er algjörlega einstök,“ segir sendiráðsstarfsmaðurinn sem hélt á ný til lands elds og ísa rétt eftir andlát Díönu prinsessu árið 1997. Hún fór þá í nám í íslensku fyrir erlenda stúdenta en það gekk bara of hægt fyrir tungumálaglöggan Norðmann.

„Þarna voru nemendur frá Rússlandi og Kína og þau voru bara margar vikur að læra að segja „Ég heiti...“ svo ég gafst upp og fór í ensku þar sem prófessor Robert Cook [heitinn] var að kenna. Hann kenndi mjög skemmtilegt námskeið sem hét Icelandic sagas in translation sem var mitt aðalnámskeið haustið 1997,“ segir Silje sem þá sat flesta tíma í Árnagarði þar sem sá er hér skrifar var á sama tíma á fyrsta ári í íslensku. Lítill heimur.

Bjór á Kaffibarnum góð fjárfesting

„Svo ætlaði ég að byrja að skrifa MA-ritgerð en var svo alltaf bara á Kaffibarnum og í rauninni lærði ég íslensku þar,“ segir Silje og hlær, „svo það var mjög góð fjárfesting að kaupa bjór á Kaffibarnum og læra íslensku. Þar kynntist ég fólki sem ég þekki enn þá, þar á meðal vinkonum frá Finnlandi og Svíþjóð sem ég fór með í hjólreiðatúr núna nýlega um Skán í Svíþjóð. Svo kom ég heim til Noregs aftur og þá fór ég að fá tilboð um þýðingar. Fyrst lítil verkefni en allt í einu var ég komin með bók og svo leiddi eitt af öðru,“ segir menningarfulltrúinn.

Í miðbænum í Stavanger á laugardaginn með eiginmanninum, Páli Sigvaldasyni …
Í miðbænum í Stavanger á laugardaginn með eiginmanninum, Páli Sigvaldasyni iðnhönnuði, og Laufeyju dóttur þeirra. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Við erum mjög fáir þýðendur sem erum að þýða af íslensku yfir á norsku, í raun allt of fáir því miður,“ segir Silje og horfist alvöruþrungin í augu við blaðamann. Hún fór svo að starfa hjá tæknifyrirtækinu Wap.com á meðan punktur com-bólan var og hét, auk þess að starfa við hausaveiðar hjá fyrrverandi starfsmanni ísraelsku Mossad-leyniþjónustunnar sem vent hafði sínu kvæði í kross enda snerust hausaveiðar þessar um sérfræðingaráðningar á vinnumarkaði en ekki manndráp.

Silje ritstýrði Islex-orðabókinni í rúmt ár og þýddi tugi íslenskra bóka fyrir ýmis forlög. „Konan við þúsund gráður eftir Hallgrím Helgason er líklega skemmtilegasta verkefnið mitt,“ segir Norðmaðurinn og brosir út í annað en núna er hún í stuttu hléi frá þýðingavinnu.

Kynntust á Gay Pride

Hvernig skyldi leið hennar þá hafa legið inn í norska sendiráðið á Íslandi? „Ég var þá að vinna hér í Stavanger og maðurinn minn, Páll Sigvaldason, fluttist til Íslands og ég fór með. Þá var olíukreppa hér og hann langaði líka að vera nær fjölskyldu sinni en við kynntumst á Ölstofunni í Reykjavík á Gay Pride-hátíðinni 2007 svo Pride hefur alltaf haft sérstaka merkingu fyrir okkur,“ segir Silje og dreymið bros leikur um varir hennar.

Þau hafi því flutt til Íslands árið 2016 og skömmu upp úr því vakti atvinnuauglýsing í Fréttablaðinu athygli Silje. „Þar var auglýsing á norsku frá sendiráðinu þar sem þessi staða var auglýst og ég sá það strax á lýsingunni að hún smellpassaði mér. Svo ég sótti um og var svo heppin að fá starfið. Byrjaði þar árið 2017,“ segir Silje en starf hennar nær vægast sagt yfir breitt svið.

Á bókasafni Sølvberget-menningarmiðstöðvarinnar í hjarta Stavanger þar sem spjallið átti …
Á bókasafni Sølvberget-menningarmiðstöðvarinnar í hjarta Stavanger þar sem spjallið átti sér stað við lok ellefu daga langrar hátíðar í minningu Hafursfjarðarorrustu og 1.150 ára sameinaðs Noregs. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Það felur í sér að fylgjast með öllu sem er að gerast, lesa blöðin, hlusta á útvarpsfréttir, vita hvað er í gangi í pólitíkinni og bara allt saman. Ég þarf að hafa góða yfirsýn yfir þetta allt en hluti af mínu starfi er líka að skrifa skýrslur um ýmis mál og sinna samstarfi. Við vorum til dæmis samstarfsaðili á viðburðinum á Siglufirði í maí þegar síðasta síldartunnan var afhent Síldarminjasafninu þar og á Icefish [sjávarútvegssýningunni] sem fjöldi Norðmanna sótti.

Svo gengur þetta mikið út á að tala við fólk, til dæmis til að koma því í samband við annað fólk í öðru hvoru landinu, til dæmis ef íslenskur listamaður vill halda sýningu í Noregi, við hvern þarf hann þá að tala?“ segir Silje af vettvangi sínum í sendiráðinu.

Minnihlutahópur dauðans

Mun meira sé um að Íslendingar leiti til sendiráðsins en Norðmenn búsettir á Íslandi, enda séu þeir örfáir, aðeins 303 um þessar mundir. „Við erum minnihlutahópur dauðans,“ segir Silje og hlær. Meðal þeirra sem leita til sendiráðsins nefnir hún unga Íslendinga sem áhuga hafi á að sækja um nám í herskóla í Noregi, slík erindi séu nokkur mánuð hvern.

Þá nefnir Silje styrk sem gengur undir nafninu Framlag til norsk-íslensks menningarsamstarfs og veittur er í desember ár hvert til að styðja við samstarfsverkefni milli þjóðanna á sviði lista og menningar. „Það er mjög flottur styrkur sem Kulturrådet í Noregi og íslenska menningarmálaráðuneytið úthluta, ég held að hann sé 1,7 milljónir norskar [tæpar 23 íslenskar] sem deilist svo niður á umsækjendur. Við miðlum upplýsingum um þennan styrk,“ útskýrir hún og nefnir ráðherraheimsóknir frá Noregi sem eitt verkefnið enn.

„Þá förum við kannski í Reykholt og kynnum þar Snorrastofu og eins höfum við heimsótt Breiðholt til að kynna Frístundakortið og hvernig það virkar, svo er Sjávarklasinn úti á Granda vinsæll, þar er mikil gróska og nýsköpun,“ segir Silje.

Annaðhvort rétt eða rangt á íslensku

Úr því hún talar íslensku nánast sem innfædd er ekki úr vegi að spyrja hvernig Norðmanni gangi að læra tungumálið með öllum sínum beygingum og málfræði, þótt reyndar vísi Norðmenn gjarnan til íslensku sem „gammelnorsk“.

„Fallbeygingar eru auðvitað mjög erfiðar fyrir okkur, við ákváðum bara að hætta þessu einhvern tímann á 15. öld og hentum þessu bara. Málkerfið okkar er rosalega einfalt og mjög oft getur maður valið hvernig maður vill beygja orð, bæði á nýnorsku og bókmáli, til dæmis hvort maður notar a- eða e-endingar,“ segir Silje og kveður það líklega vera útlendingum sem læra norsku töluverð áskorun, að finna „norskuna sína“.

Búrfellsganga í svipmiklu íslensku landslagi. Silje hefur bundist Íslandi sterkum …
Búrfellsganga í svipmiklu íslensku landslagi. Silje hefur bundist Íslandi sterkum böndum allar götur síðan hún kom hingað fyrst á sumarnámskeið í bókmenntum árið 1996. Ljósmynd/Aðsend

„Talið berst að málformunum bókmáli og nýnorsku sem bæði eru opinber mál í landinu, ásamt samísku, og víða bitbein, til dæmis hjá sveitarfélögunum, hvort málformið skuli notast við. „Það er ótrúlegt hvað við Norðmenn getum rifist mikið um tungumálið okkar. Hjá Íslendingum er það bara annaðhvort rétt eða rangt en hérna gengur eitt hér og annað þar,“ segir Silje og bendir á að þessu atriði þurfi að gefa gaum við þýðingar bóka yfir á norsku.

Erlendur með Stavanger-framburð

„Maður þarf að finna þá norsku sem hentar bókinni. Til dæmis í bókunum hans Arnaldar sem ég er búin að þýða mjög lengi. Ef sögunni víkur til einhvers bæjar úti á landi, kannski sjávarþorps, þá gengur það náttúrulega ekki upp að ég þýði tal fólks þar yfir á Óslóarmál, þannig væri það aldrei hér. Það sama gildir um Erlend [lögreglumann, höfuðpersónu Arnaldar gegnum árin], hann er utan af landi svo þá þýði ég hann svona aðeins yfir á það mál sem er talað hér á svæðinu,“ útskýrir þýðandinn.

Mæðgur fagna norskri þjóðhátíð 17. maí í Reykjavík, að sjálfsögðu …
Mæðgur fagna norskri þjóðhátíð 17. maí í Reykjavík, að sjálfsögðu skrýddar hefðbundnum norskum þjóðbúningi, bunad. Ljósmynd/Aðsend

Sem fyrr segir er Silje afkastamikill þýðandi og liggja eftir hana rúmlega 30 þýddar bækur af íslensku á norsku, höfundarverk margra annáluðustu rithöfunda Íslands um þessar mundir, svo sem Arnaldar, Yrsu Sigurðardóttur, Hallgríms Helgasonar, Auðar Övu Ólafsdóttur, Steinars Braga og Sjóns. Bókaþýðingar hennar nálgast hins vegar 45 séu bækur þýddar af ensku, sænsku og dönsku taldar með.

„Þetta er örugglega martröð fyrir útlendinga að koma hingað og læra málið með allar þessar mismunandi mállýskur og ríg milli landshluta um málfræðileg atriði,“ segir Silje og brosir, „það er einn helsti kosturinn við íslenskuna að þar er allt í röð og reglu, auðvitað eru undantekningar en þær eru mjög fáar svo þetta er mjög aðgengilegt tungumál,“ segir hún.

Tek ekki jóga-myndir af mér

Sem Norðmaður hlýtur hún að vera haldin hinni miklu skíðabakteríu Norðmanna, eða hvað er verið að bralla í tómstundum?

„Já, ég er náttúrulega Norðmaður svo það eru gönguskíðin á veturna, reyndar stundum svigskíði líka en mér finnst bara svo leiðinlegt að standa í röð og bíða eftir lyftu á skíðastöðunum. Það er alveg dásamlegt hvað Íslendingar eru að detta mikið inn í gönguskíðamenninguna finnst mér. Annars var ég ekki alin upp sem útivistarmanneskja, foreldrar mínir voru alltaf á jazzklúbbum svo þetta var eitthvað sem ég tók bara upp hjá sjálfri mér,“ segir Silje sem fer töluvert mikið á fjöll á Íslandi. „En ég tek ekki jógamyndir af mér á fjallstindum,“ segir hún og hlær.

Páll, Laufey og Silje í Stavanger á laugardaginn þar sem …
Páll, Laufey og Silje í Stavanger á laugardaginn þar sem þau dvelja í fríi um þessar mundir. „Þetta er örugglega martröð fyrir útlendinga að koma hingað og læra málið með allar þessar mismunandi mállýskur og ríg milli landshluta um málfræðileg atriði,“ segir Silje um móðurmál sitt. mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Svo er ég í einhverju sem heitir barre hjá konu sem heitir Helga Theodors og er nýbúin að opna úti á Granda. Þetta eru svona ballett-pilates-æfingar og af því að ég er að verða fimmtug finnst mér þetta henta mér,“ segir Silje og vottar fyrir glotti. „Ég fékk brjósklos í fyrra og það hentar mér til dæmis ekki að vera að lyfta,“ heldur hún áfram en Silje er Sunnmæringur í móðurættina og ólst því upp við látlausan róður sem líkamsrækt.

Janteloven og þetta reddast

Að því kemur að hnýta endahnútinn á fróðlegt viðtal við Stavanger-búa altalandi á íslensku, sannarlega sjaldséðan hvítan hrafn. Ekki er annað hægt en að lokaspurning snúist um jantelov þeirra Norðmanna, eða jante-lögin, sem runnin eru undan rifjum dansk-norska rit­höf­und­arins Ak­sels Sand­emose og hann setti fram árið 1933 í bók sinni En flyktn­ing kryss­er sitt spor, en hið fyrsta af þeim tíu boðorðum er „Þú skalt ekki halda að þú sért eitt­hvað.“

„Það er nú þannig hjá mér að stundum finnst mér janteloven alveg ömurleg og stundum finnst mér þau frábær,“ svarar Silje, „þau koma á vissan hátt í veg fyrir að vanhæfni breiði úr sér en þau geta auðvitað líka haldið aftur af manni sem er verra. Mér finnst mjög jákvætt við Ísland að þar eru ekki jantelov. Stundum virkar það mjög vel, til dæmis að því leyti að fólk er óhræddara við að prófa sig áfram og gera eitthvað nýtt,“ segir Silje.

Það eigi sér þó líka leynda ókosti þar sem fólk fari þá í einhverjum tilfellum að fást við hluti sem það í raun ræður ekki við. „Janteloven ganga í raun út að vera ekki að sýnast. Þú mátt alveg vera mjög góður í einhverju en þá áttu helst ekki að tala neitt um það. Á norsku er til mjög gott orð yfir þetta, þú átt að vera „smålåten“,“ útskýrir Norðmaðurinn, orð sem ef til vill væri best snúið á íslensku sem hógvær eða lítillátur.

Glöggt er gests augað

„Mér finnst þetta samt vera að breytast aðeins núna hérna í Noregi og janteloven að fjara út. Þau sitja reyndar mjög sterkt í mér samt. Kannski mætti líkja þessu við íslenska hugsunarháttinn „þetta reddast“. Ég hef tekið eftir því að ef enginn segir „þetta reddast“ þá reddast hlutirnir yfirleitt, en þegar fólk segir sífellt „þetta reddast“ finnst mér það bera meiri vott um ábyrgðarleysi eða metnaðarleysi,“ segir Silje. Glöggt er gests augað.

Á kaffihúsinu í Sølvberget-miðstöðinni. „Janteloven ganga í raun út að …
Á kaffihúsinu í Sølvberget-miðstöðinni. „Janteloven ganga í raun út að vera ekki að sýnast. Þú mátt alveg vera mjög góður í einhverju en þá áttu helst ekki að tala neitt um það.“ mbl.is/Atli Steinn Guðmundsson

„Þegar allir byrja að tala um „þetta reddast“ veit ég að allt fer til helvítis,“ segir hún hlæjandi, „janteloven og „þetta reddast“ eru svona fyrirbæri sem eiga alveg rétt á sér en það má bara ekki verða of mikið af þeim,“ segir Silje Beite Løken, menningarfulltrúi norska sendiráðsins í Reykjavík, við lok fróðlegs spjalls í bókasafni Sølvberget-miðstöðvarinnar í hjarta hennar gamla heimabæjar, Stavanger.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert