Sá ekki höggið koma

Morgunblaðið/Sigurður Bogi

Maðurinn sem varð fyrir líkamsárás í fótboltaleik á Litla-Hrauni á mánudaginn var sleginn í andlitið frá blindu hlið sinni og sá því ekki höggið koma.

Þetta segir í færslu sem deilt var með liðsmönnum eldri-deildar Þróttar eftir að atvikið. 

„Það small hátt í beinum og var þetta hrikalega ljótt að sjá og heyra,“ segir í færslunni þar sem kemur fram að enginn hafi þó brotnað, þótt vissulega hafi mikið blætt.

Aðdragandi atviksins er sagður vera minni háttar átök innan vallarins sem leystust með aukaspyrnu Þrótti í vil. Þá hafi fangi á hliðarlínunni stokkið inn á völlinn með áðurnefndum afleiðingum.

„Þetta gerðist mjög snöggt og enginn náði að stoppa Hrottann en allir urðu brjálaðir út í [hann], sérstaklega Hrottar því þeir vissu að þetta mun hafa afleiðingar og koma í veg fyrir að þeir fái svona heimsóknir,“ segir í færslunni.

Þá segir einnig að hann hafi strax áttað sig á mistökum sínum og beðið liðsmenn sína afsökunar.

Maðurinn er, samkvæmt heimildum mbl.is, fæddur árið 2002 og alræmdur fyrir hvatvísi sína.

Þekkja allir reglurnar

Páll Winkel fangelsismálastjóri segir í samtali við mbl.is að almennt geri menn sér grein fyrir að atvik sem þessi geti haft áhrif á allan hópinn. „Það þekkja nú allir reglurnar,“ segir Páll í samtali við mbl.is.

„Ég veit að þeir átta sig á því að hluti af því er að standast traust þegar boðið er upp á eitthvað uppbyggilegt.“

Spurður um hvað hægt sé að gera til að hindra að atvik sem þessi komi upp segir hann:

„Í fangelsum hleypum við bara einstaklingum sem að standast skoðun. Við pössum að þeir sem að koma inn séu í lagi. Það sem við gerum svo þegar að svona stærri viðburðir eru, þá erum við með góða gæslu á svæðinu.

Hún var góð í þessu tilviki. Svona getur komið upp, það er okkar verkefni þá að vera þá betur á tánum. Ef við erum í minnsta vafa með hæfi einstaklinga til að vera með í svona samkomum þá verða þeir ekki hafðir með.“

Páll Winkel fangelsismálastjóri.
Páll Winkel fangelsismálastjóri. mbl.is/Ásdís Ásgeirsdóttir

Vilja ekki eyðileggja góða hefð vegna eins fanga

Páll segir að knattspyrnuleikir hafi verið haldnir á Litla hrauni um árabil en þetta sé í fyrsta skipti sem eitthvað komi upp á.

„Við viljum ekki eyðileggja þá góðu hefð, vegna einnar uppákomu, heldur þá frekar velja betur hvaða fangar það eru sem geta tekið þátt og verið viðstaddir.“

Þannig slæm hegðun eins getur haft áhrif á allan hópinn?

„Við viljum ekki að það verði þannig en ef þetta verða endurteknar uppákomur þá að sjálfsögðu verðum við að endurskoða fyrirkomulagið.

En eins og ég segi þá er þetta í fyrsta skipti sem það gerist.“

Líkt og greint var frá í gær var árásin kærð til lögreglu auk þess sem fanginn mun sæta viðeigandi agaviðurlögum vegna agabrots í fangelsi. Halldór Valur Pálsson, forstöðumaður Litla-Hrauns vildi ekki fara nánar út í þau viðurlög, inntur eftir því.

Ekki hefur enn verið tekin ákvörðun um framtíðar fótboltaleiki á Litla-Hrauni.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert