Vonar að árásin hafi ekki varanleg áhrif á soninn

Feðgar sátu í bíl sem skotið var á.
Feðgar sátu í bíl sem skotið var á. mbl.is/Tómas Arnar

Mateusz Dariusz Lasek, faðirinn sem var á leið með son sinn á leikskólann Víðivelli í Hafnarfirði í gær þegar skotið var á bíl þeirra, segist ekki hafa gert sér grein fyrir strax að um skothvelli hefði verið að ræða. Hélt hann fyrst að hljóðin kæmu frá bílnum.

Það var ekki fyrr en seinni smellurinn kom og rúðan mölbrotnaði yfir Mateusz, að hann steig út og sá karlmann á svölum í fjölbýlishúsinu við hliðina á haldandi á byssu sem var miðað á ökutæki feðganna.

„Ég hrópaði á hann „hvað ertu að gera?“ og „hættu þessu“ og sagði að ég ætlaði að hringja í lögreglu. Svo hringdi ég strax í lögreglu. Það var hvort sem er enginn annar á bílastæðinu nema við feðgarnir,“ sagði Mateusz þegar hann lýsti atburðarásinni í viðtali á Rúv.

Maðurinn taldi hann vera glæpamann

Eftir að Mateusz hafði hrópað mjög hátt á manninn og spurt hann hvers vegna hann væri að þessu, fékk hann það svar að maðurinn hefði staðið í trú um að hann væri glæpamaður.

Að sögn Mateuszar hafði atburðurinn slæm áhrif á son hans sem er einungis sex ára, og byrjar í grunnskóla í haust. Segir hann son sinn enn ekki vita hvað fór fram á bílastæðinu í gær, einungis að „vondur maður“ hafi skemmt bílrúðuna þeirra og að faðir hans hafi hrópað á hann og beðið um að leggjast á gólfið.

Hann skilur ekki enn að maðurinn reyndi augljóslega að drepa okkur. Hvað er annað hægt að kalla þetta?“

Á erfitt með einbeitingu

Rauði kross Íslands bauð í gær fram áfallahjálp vegna árásarinnar og leitaði Mateusz til þeirra eftir að kona hans sannfærði hann um það. Hann hefur átt erfitt með að einbeita sér og mætti ekki til vinnu í dag en hefur fundið fyrir miklum stuðningi. Hann vonar að atburðurinn muni ekki koma til með að hafa varanleg áhrif á son sinn.

mbl.is