Hlýnar hraðar á norðurslóðum en annars staðar

Borgarísjaki fyrir utan bæinn Kulusuk á Grænlandi.
Borgarísjaki fyrir utan bæinn Kulusuk á Grænlandi. AFP

Hlýnun á norðurslóðum heldur áfram að aukast hraðar en hnattræn hlýnun. Þetta kemur fram í samantekt samráðsfundar um veðurfarshorfur á norðurslóðum.

Fundurinn, sem haldinn er tvisvar á ári, er hluti af Arctic Climate Forum, sem er samstarfsvettvangur ríkja á norðurslóðum.

Á síðasta áratug hefur meðalhiti flestra ára verið með því sem mest var á tímabilinu 1900-2022. Þetta á jafnt við um sumar- og vetrarhita sem ársmeðalhita, þó vissulega sé verulegur breytileiki á milli ára, einkum á kuldatímabilum.

Fjallað er um samantektina á vef Veðurstofunnar, en í henni kemur einnig fram að veturinn 2022 náði útbreiðsla norðurskautsíssins hámarki tveimur vikum fyrr en í meðalári. Ef horft er til mælinga á útbreiðslu norðurskautsíssins frá 1979, hefur útbreiðsla hans á hverjum vetri verið að minnka tíu ár í röð.

Mikilvægt að átta sig betur á heildarstöðunni

Þessi samantekt kemur í kjölfar níunda fundar Arctic Climate Forum sem haldinn var á netinu 24.-25. maí 2022, en þar komu saman fulltrúar Íslands, Bandarikjanna, Kanada, Danmerkur, Svíþjóðar, Noregs, Finnlands og Rússlands.

Anna Hulda Ólafsdóttir, yfirmaður skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar á Veðurstofu Íslands, sá um að kynna niðurstöður fyrir árstíðabundið yfirlit og horfur á hitastigi og úrkomu fyrir vestnorræna svæðið.

„Þessi samstarfsvettvangur, sem er undir hatti Alþjóðaveðurfærðistofnunarinnar, er mikilvægur til að nýta sérþekkingu innan hvers lands til að átta sig betur á heildarstöðu á norðurslóðum,“ er haft eftir Önnu Huldu.

„Hópurinn tekur einnig saman veðurhorfur næsta árs, til dæmis hvað varðar hitastig, úrkomu og hafís, en spár um myndun og hörfum hafíss skiptir sum byggðarlög á norðurslóðum verulegu máli.“

mbl.is