Flytur inn uppáhalds tónlistarmanninn sinn

Snorri Ástráðsson, tuttugu og eins árs plötusnúður og framkvæmdastjóri Garcia events, stendur að því að flytja inn uppáhalds tónlistarmanninn sinn til Íslands, Skepta, sem mun stíga á svið í Valsheimilinu föstudaginn 1. júlí. 

„Þetta er búið að vera lengi í vinnslu, við fengum þessa hugmynd 2018 þegar hann tilkynnti tónleikaferðalag um Evrópu og Ísland var ekki inn í því,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Þá ákvað Snorri að bera hugmyndina undir bróður sinn, Egil Ástráðsson, og þeir gengu í málið, en Snorri hefur haldið mikið upp á Skepta frá því í grunnskóla. 

Skepta er breskur rappari sem hefur notið mikilla vinsælda undanfarin ár. Hann hefur áður komið fram á Íslandi, ásamt bróður sínum JME, en þeir komu fram í Listasafni Reykjavíkur á  hátíð Iceland Airwaves árið 2015. 

Á þeim 7 árum sem síðan hafa liðið hefur Skepta gefið út þrjár plötur auk stakra laga, á borð við „Shutdown“ og „Praise da Lord“.

Hópspjallið varð að fyrirtæki

„Við reyndum að fá hann vorið 2019, aftur haustið 2019, svo var Covid alltaf að eyðileggja þetta, við reyndum vorið 2020 og sumarið 2020.“

Þeir bræður, ásamt Sigríði Ólafsdóttur og Alexis Erni Garcia, stofnuðu saman fyrirtækið „Garcia events“ til þess að halda utan um skipulagningu tónleika.

Hugmyndin að nafninu varð til vegna þess að hópspjall sem þau áttu saman, þegar þau voru að hjálpast að við að vinna við aðra tónleika, hét þessu nafni. „Þá kom ekki til greina að nota neitt annað nafn.“

Ísland heillar

Í vor, þegar umboðsmenn Skepta voru að raða saman dagskrá tónlistarmannsins fyrir sumarið, höfðu þeir samband við hópinn á ný og lýstu yfir áhuga að koma til Íslands. „Það er bara þannig að Ísland heillar,“ segir Snorri. 

Fjórum dögum eftir að samkomulag náðist við tónlistarmanninn tilkynnti hópurinn um komu hans. Allt bar þetta mjög skyndilega að, en tónleikarnir voru því kynntir þann 28. apríl. 

Hann hefur ekki fengið að vera í miklum samskiptum við tónlistarmanninn sjálfan í gegnum ferlið, en hlakkar til að taka á móti honum.

Snorri segir Skepta og hans teymi leggja mikið upp úr metnaðarfullri sviðsmynd, og það hefur því farið töluverð vinna í að undirbúa sviðið. 

Miðasala á tónleikana hafi gengið vel og örfáir miðar séu eftir. 

„Þetta er bara byrjunin“

Hann stefnir á að Skepta verði ekki síðasti heimsþekkti listamaðurinn sem Garcia events fær til landsins. „Við erum nú þegar komin með alls konar pælingar, þetta er bara byrjunin en við viljum klára þetta vel.“

Snorri er búsettur í Kaupmannahöfn ásamt Brynju Sveinsdóttur, kærustu sinni. Þar er hann í námi við skóla sem heitir Rytmisk Musikkonservitorium og er að læra allt sem við kemur því að halda tónlistarviðburði, umboðsmennsku og fleiri viðskiptahliðum tónlistargeirans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert