Íslendingar í Ósló hvattir til að láta vita af sér

Íslendingar í Ósló eru hvattir til að vera í sambandi …
Íslendingar í Ósló eru hvattir til að vera í sambandi við aðstandendur í gegnum samfélagsmiðla. AFP/Terje Pedersen

Íslendingar í Ósló í Noregi eru beðnir um að hafa samband við neyðarnúmer borgarþjónustunnar ef aðstoðar er þörf, en vera í sambandi við aðstandendur og láta vita af sér ef allt er í lagi.

Þetta kemur fram í færslu á vef íslenska sendiráðsins í Ósló. Þa er jafnframt tekið fram að sendiráðið fylgist vel með framvindu mála.

Fólk er hvatt til að virða lokanir og tilmæli yfirvalda og að fylgjast með staðbundnum fjölmiðlum. Mikið álag er á símkerfi borgarinnar og fólki er bent á að nota frekar samfélagsmiðla til að láta vita af sér.

AFP/Olivier MORIN

Tveir létust og yfir tuttugu særðust, þar af tíu alvarlega í skotárás í miðborg Óslóar í gær. Árásin átti sér stað við skemmtistaðinn London Pub, sem er vinsæll samkomustaður hinsegin fólks.

Gleðigöngunni, Oslo Pride, sem átti að fara fram í dag hefur verið aflýst, sem og öllum viðburðum henni tengdri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert