Að drukkna í Innsævi

Jóhann Ágúst Jóhannsson, forstöðumaður Menningarstofu Fjarðabyggðar, í blómguðu fjarðanna skauti …
Jóhann Ágúst Jóhannsson, forstöðumaður Menningarstofu Fjarðabyggðar, í blómguðu fjarðanna skauti þar eystra. Ljósmynd/Aðsend

„Hér er bara búið að vera vitlaust að gera,“ segir Jóhann Ágúst Jóhannsson, forstöðumaður Menningarstofu Fjarðabyggðar, sem á fimmtudaginn hleypti af stokkunum menningar- og listahátíðinni Innsævi þar fyrir austan, en hún stendur í mánuð og kennir þar ýmissa grasa, til dæmis mun búlgarski hljóðlistamaðurinn Mirian Kolev spila á rabarbara.

„Við hjá Menningarstofunni í Fjarðabyggð höfum staðið í ströngu, undirbúningurinn fyrir þessa listahátíð hefur staðið frá því á síðasta ári og upp úr áramótum auglýstum við eftir viðburðum til að vera með hérna ásamt því að hafa samband við listamenn sem okkur langaði að fá á svæðið,“ heldur Jóhann áfram þar sem hann situr á skrifstofu sinni í Þórsmörk, rúmlega hundrað ára gömlu húsi í Neskaupstað.

Skemmtiferðaskip láta sjá sig

Þegar öll kurl voru komin til grafar varð til dagskrá sem kynnt var við opnunina en Jóhann gerir þann fyrirvara að við hana geti bæst svokallaðir „pop-up“-viðburðir þegar minnst vonum varir. Skapandi sumarstörf fyrir ungmenni er annar liður í því sem Fjarðabyggð býður upp á og felst í því að ungt fólk vinnur að eigin listsköpun og tekur þátt í listahátíðinni að ógleymdri fimm vikna listasmiðju fyrir yngstu börnin.

Þjóðlagasveitin Brek leikur aðallega frumsamda tónlist með áhrifum úr mismunandi …
Þjóðlagasveitin Brek leikur aðallega frumsamda tónlist með áhrifum úr mismunandi stílum þjóðlaga- og dægurtónlistar. Ljósmynd/Aðsend

Gestkvæmt er um gervalla Austfjörðu þegar almennt sjúkdómsástand ríkir ekki í heiminum og koma ferðamenn hvort tveggja akandi, með ferjunni og skemmtiferðaskipum. „Þau eru byrjuð að sigla aftur núna inn á Seyðisfjörð og Eskifjörð, sumarið í fyrra var þannig að hér var bara bongóblíða út í eitt og við vonumst eftir góðu sumri núna líka, þá vitum við að ferðamennirnir láta sjá sig, þeir sem elta sólina,“ segir menningarforkólfurinn.

Hvernig skyldi veðrið þá vera núna? „Það er nú ekkert sérstakt,“ svarar Jóhann og hlær, „það er nú ekki hægt að lofa bongóblíðu í dag en vonandi rætist úr því,“ segir hann og sýnir sérstakan bjór listahátíðarinnar gegnum myndsímtal á Messenger, en það er brugghúsið Beljandi sem á veg og vanda af honum. „Þennan buðum við upp á við opnunina.“

Aldrei fer hann suður

Jóhann heldur tvö heimili, í Reykjavík og Neskaupstað, og á konu og börn fyrir sunnan. Svo rammt kveður að dagskrá menningarmála í Fjarðabyggð að oft kemst hann hvorki lönd né strönd vikum saman. „Ég skrapp suður núna 9. júní þegar dóttir mín útskrifaðist en veit nú ekki alveg hvenær ég kemst næst,“ segir hann.

Metalriff allra landa sameinist. Curver Thoroddsen býr til kakófóníska sinfóníu …
Metalriff allra landa sameinist. Curver Thoroddsen býr til kakófóníska sinfóníu úr metalriffum í Gömlu netagerðinni í Neskaupstað þar sem hann dreifir hátölurum um rýmið og leikur sér með riffin í endalausum endurtekningum. Ljósmynd/Aðsend

Við eftirgrennslan kemur í ljós að Þórsmörk, húsið sem hýsir Menningarstofu Fjarðabyggðar, á sér merka sögu. „Þetta hús var komið í niðurníðslu fyrir 25 árum þegar Listasmiðja Norðfjarðar fékk það að gjöf og góður hópur af áhugafólki um list og listsköpun tók þá að sér að gera það upp og vann mikið uppbyggingarstarf. Þetta var orðið ansi mikið og þungt ferli að koma húsinu í horf svo að lokum var samið við Fjarðabyggð um aðkomu sem endaði með samstarfi og því að Menningarstofan fékk hér afdrep í nýuppgerðu húsnæði,“ segir Jóhann.

Þar með hafi orðið til aðstaða til að taka á móti listafólki sem sækir sveitarfélagið reglulega heim vegna ýmissa verkefna auk þess sem Þórsmörk nýtist til sýningahalds. Nýlega hafi SÚN, Samvinnufélag útgerðarmanna í Neskaupstað, svo tekið við húsinu og muni annast það sem eftir er enduruppbyggingarinnar.

Brennandi áhugi á menningarmálum

Leið Jóhanns inn í heim menningar og lista lá upphaflega gegnum tónlistaráhuga hans en auk þess hefur hann sótt sér umfangsmikla menntun í tengslum við stjórn viðburða. „Ég stúderaði fyrst menningarstjórnun á Bifröst og svo lá leiðin í meistaranám í menningarmiðlun í HÍ með viðkomu í viðburðastjórnun á Hólum. Ég hef alltaf haft brennandi áhuga á menningarmálum og sá svo stöðuna hér auglýsta,“ segir Jóhann.

Ína Berglind Guðmundsdóttir mun sjá um upphitun fyrir Svavar Knút …
Ína Berglind Guðmundsdóttir mun sjá um upphitun fyrir Svavar Knút á fjölskyldutónleikum á Beljanda en hún er vaxandi tónlistarkona úr Fellabæ. Ljósmynd/Aðsend

Kveðst hann um leið hafa komið auga á fjölda tækifæra til að láta til sín taka á vettvangi lista og menningar í Fjarðabyggð og gera skemmtilega hluti á skemmtilegum vettvangi. Starfið feli einnig í sér forstöðumennsku Tónlistarmiðstöðvar Austurlands.

„Eins langaði mig bara til að prófa að búa úti á landi,“ játar Jóhann, rótgróinn Garðbæingur að uppruna en nú búsettur, stundum alla vega, í Reykjavík. Hann verður svo bókstaflega á haus næstu daga við að halda Innsævi gangandi. „Hér verður mikið um að vera við að taka á móti fólki, „preppa“ sýningarsali, hengja upp myndir, stilla upp tónleikasölum sem verður auðvitað bara spennandi og gaman. Þetta á eftir að taka á en umfram allt er þetta skemmtilegt,“ segir Jóhann Ágúst Jóhannsson, forstöðumaður Menningarstofu Fjarðabyggðar, með flóð á næsta leiti í Innsævi sínu.

Áhugasamir geta kynnt sér dagskrána hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert