Íbúar björguðu tónleikum Emilíönu Torrini

Emilíana Torrini greindi frá á instagram síðu sinni.
Emilíana Torrini greindi frá á instagram síðu sinni. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Söngkonan Emiliana Torrini, er á tónleikaferðalagi um þessar mundir en lenti í því óhappi að hljóðfærin týndust öll í München í Þýskalandi, á leið til Macerata á Ítalíu. Íbúar Macerata komu til bjargar og tókst því að halda tónleika að lokum. 

„Eftir tuttugu og fjögurra klukkustunda ferðalag, aflýst flug, nýjar bókarnir, mikla bið, massífar biðraðir og engan mat, komumst við loks til Macerata... án hljóðfæra,“ skrifar hún við færslu á Instagram-reikningi sínum. 

Hópurinn dó þó ekki ráðalaus, heldur gekk að næstu byggingavöruverslun og maður að nafni Aarich fékk leyfi til þess að smíða þar nýtt flapamba-hljóðfæri, fyrir kvöldið. Eigandi verslunarinnar ákvað svo að rukka ekki fyrir efniviðinn. 

Francesco hljóp í skarðið

Hópinn vantaði ekki bara hljóðfærin, heldur var enginn píanóleikari með í för að þessu sinni. Francesco, píanóleikari í Macerata, hljóp í skarðið og spilaði undir með þeim svo Emilíönu tókst að halda tónleikana að lokum með nýjum píanóleikara og nýju flapamba-hljóðfæri. 

Hún birti myndband af hljóðfærasmíðunum og þakkaði Macerata fyrir góðan mat, drykki og dans á götum úti. Þá lét hún fylgja myllumerki til heiðurs þeim náungakærleika sem henni hafði verið sýndur af ókunnugum íbúum Macerata.

mbl.is

Bloggað um fréttina