Kveður ungbarnasundið eftir 22 ár

Óli Gísla hættir að kenna ungbarnasund eftir 22 ára farsælan …
Óli Gísla hættir að kenna ungbarnasund eftir 22 ára farsælan feril. Ljósmynd/Gísli Ólafsson

Ólafur Ágúst Gíslason, betur þekktur sem Óli Gísla, hélt sitt síðasta ungbarnasundnámskeið á Reykjalundi þann 10. júní eftir 22 ára feril. Fjöldi foreldra hefur fengið að njóta gæðastunda með börnunum sínum í vatninu undir leiðsögn Óla. 

„Það sem stendur upp úr er þakklæti og mikil ánægja að hafa fengið að starfa með þessi ungbörn. Launin eru bros þeirra sem maður uppsker. Það sem maður hefur fengið úr þessu er ánægja og sú tilfinning að fá að vera með ungbörnum og foreldrum þeirra og hafa átt gleðistund með þeim,“ segir hann. 

Snýst um að njóta samverustundar í vatninu 

Áhugi á ungbarnasundkennslu kviknaði hjá Óla árið 1999 en áður hafði hann starfað sem íþróttakennari frá árinu 1980 í Garðaskóla. Margir nemendur hans áttu eftir að sitja fleiri kennslustundir hjá honum á fullorðinsárum í sundlauginni í Reykjalundi. 

„Ungbarnasundið snýst um samveru með foreldrum, að þau kunni að njóta þess að vera með börnunum í vatni. Ég var alltaf með fyrirlestur áður en ég byrjaði nýtt námskeið. Ég talaði um að þetta væri ekki spurning um að kenna börnunum að synda, heldur að njóta þess að vera í sundi og upplifa samverustund með barninu í sundinu. Þetta er ekki köfun sem slík en snýst fyrst og fremst um að læra að vera með barninu í vatni og leyfa því að njóta þess,“ segir Óli.

Áhuginn á ungbarnasundkennslu kviknaði þegar Óli fór sjálfur með strákinn sinn í ungbarnasund en þá tók hann eftir því hve góða tengingu sundið býður upp á, sérstaklega fyrir feður og ungbörn þeirra. Hann tók námskeið í Ósló um aldamótin. 

„Ég ætlaði ekki að bæta við mig neinni vinnu, þá var ég búinn að vera á fullu í kennslu í 20 ár, en þetta var hin ánægjulegasta viðbót sem ég bætti við mig og það dýrmætasta sem ég hef gert. Ég ætla ekki að gera lítið úr 38 árum í íþróttakennslunni, það er margur nemandinn sem ég hitti út á götu, sem er alltaf ánægjulegt. Ég er bara mjög ánægður með þennan árangur sem ég hef náð á báðum sviðum,“ segir hann.

Ljósmynd/Aðsend

Börn sem ekki halda höfði sýni aukinn styrk 

Ungbarnasund mun þó halda áfram á Reykjalundi, nú undir handleiðslu Fabio La Marca. Óli segir ungbarnasund fela í sér mikla heilsubót:

„Vatnið sem slíkt styrkir börnin. Þegar þú réttir út höndina og sveiflar henni finnur þú ekki fyrir neinni mótstöðu en um leið og þú ferð í vatn og hreyfir höndina þá er það erfiðara og þú finnur mótstöðuna. Það er mótstaðan og það er styrkurinn sem barnið fær sem skiptir máli. Það reynir á líkamann, reynir á hjartað og lungun sem eru mikilvægustu líffæri líkamans. Við getum sagt að í ungbarnasundi byrji líkamsrækt hjá ungbarni. Það er góð öll hreyfing sem er fyrir utan það að leggja barnið í vöggu, lyfta því upp, gefa því bjóst og svo framvegis. Allt umfram það er mjög jákvætt,“ segir hann. Oft sést mikill munur á börnum eftir eitt námskeið.

„Börn sem ekki hafa haldið höfði og koma þriggja mánaða í sund styrkjast mjög. Eftir að hafa verið á námskeiðinu í fjórar vikur sjáum við gífurlegan mun. Það fer að halda höfði, styrkurinn eflist vegna áreitisins, tvisvar í viku í tæpan klukkutíma. Það styrkir barnið og styrkir samband foreldra við barnið. Við pabbarnir erum til dæmis ekki dagsdaglega alltaf með barnið berir að ofan að líkamanum,“ segir hann en sundið komi þá einmitt sterkt inn.

Spurður hvað taki næst við segir Óli: 

„Ég er að njóta lífsins. Ég er ennþá að vinna aðeins, ég er með líkamsrækt í Garðabæ. Þar eru menn og konur á besta aldri, búinn að vera með það í 33 ár. Þannig ég er ekki alveg hættur að vinna. Ég er í fríi núna og byrja aftur í haust. Þarna er 60 manna hópur sem ég er með tvisvar í viku, mánudaga og miðvikudaga. Ég mun halda því áfram til þess að halda því við. Ég fæ borgað fyrir að hreyfa mig, þannig ég er ekki alveg hættur, en það sem tekur við er að njóta þess sem lífið að bjóða, með fjölskyldu og vinum,“ segir Óli.

mbl.is