Psilocybin ekki eitur-, fíkni- eða vímuefni

Vitundarvíkkandi eða hugabreytandi efni, líkt og psilocybin, sem eru virk efni í ofskynjunarsveppum eru ekki eitur-, fíkni- eða vímuefni þrátt fyrir að þau séu flokkuð sem ólögleg efni. Þetta segir Héðinn Unnsteinsson, formaður Geðhjálpar, í Dagmálum.

„Psilocybin er ekki eiturlyf; það þarf yfir 40 kíló eða hvað það er, ansi mörg kíló til að fá eituráhrif af efninu. Þetta er ekki fíkniefni, af því að fíknistuðullinn er lægri en í kaffi og þetta er heldur ekki í eiginlegri merkingu vímuefni – þú ferð í hugbreytt ástand en það er ekki víma í sjálfu sér,“ útskýrir Héðinn. 

Klínískar rannsóknir á notkun efnanna eru langt komnar að sögn Héðins. Þær sýna miklar breytingar á þeim huglægu skölum sem notaðir eru við til að mæla einkenni þunglyndis. 

Í fullri notkun innan fárra ára

Psilocybin er þegar í dag vinsælt efni sem er notað í smáum skömmtum við ýmsum kvillum. Héðinn segir að miðað við gang rannsókna gætu vitnunarvíkkandi efni verið komin inn almenna notkun í heilbrigðiskerfinu innan þriggja til fjögurra ára. 

Héðinn er gestur Karítasar Ríkharðsdóttur í Dagmálum þar sem farið er yfir stefnu og stefnubreytingar í geðheilbrigðismálum á Íslandi, rannsóknir og nýjar aðferðir við meðferð á einkennum geðsjúkdóma og fordóma samfélagsins gagnvart geðsjúkdómum svo eitthvað sé nefnt. 

Hægt er að horfa á þáttinn í heild sinni hér. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert