Ræninginn handtekinn eftir eftirför lögreglu

Maðurinn ók meðal annars utan í tvo bíla og á …
Maðurinn ók meðal annars utan í tvo bíla og á móti umferð. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Maður sem réðst á kassastarfsmann með ofbeldi í gær og stal peningum úr sjóðsvél í Nettó í Lágmúla komst af vettvangi í bíl sem lögreglumenn veittu eftirför. Lauk eftirförinni með umferðaróhappi í Kópavogi. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu, en mbl.is greindi frá ráninu í gær.

Þá hafði árásaðilinn ekið utan í að minnsta kosti tvo bíla. Hann ók á miklum hraða, virti ekki umferðalög og ók meðal annars á móti umferð.

Eftirförin endaði með umferðaróhappi í Kópavogi.
Eftirförin endaði með umferðaróhappi í Kópavogi. Ljósmynd/Ingvar Guðmundsson

Maðurinn var handtekinn en hann er einnig grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna, ítrekaðan akstur án ökuréttinda, vörslu fíkniefna og fleira. Hann var vistaður í fangageymslu lögreglu vegna rannsóknar málsins. Engin slys urðu á fólki.

Ránið átti sér stað klukkan rétt rúmlega hálf átta í gærkvöldi og að sögn vitna sló maðurinn til kassastarfsmannsins áður en hann hvarf á brott með ránsfenginn. Viðstaddir voru mjög skelkaðir eftir atvikið.

mbl.is