„Bráðaaðgerð að byggja tvö hótel á Akureyri“

Framkvæmdastjóri Niceair á Akureyri segir það bráðaaðgerð að byggja í það minnsta tvö hótel á Akureyri til að taka á móti þeim ferðamannastraumi sem er væntanlegur og að hluta þegar skollinn á. Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson er gestur Dagmála í dag og hann segir Akureyri og Eyjafjarðarsvæðið vera á svipuðum stað og höfuðborgarsvæðið var í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli, þegar Reykjavík annaði ekki gistirými sem ferðamenn vildu bóka. Hann segir ljóst að það vanti um 300 hótelherbergi á næstu mánuðum á Akureyri.

Lúlli, eins og hann er yfirleitt kallaður, fer yfir tildrög að stofnun félagsins, þau markmið sem það hefur sett sér og hið afskaplega furðulega „Bretlandsmál.“ Niceair fékk hringingu skömmu eftir flugtak í jómfrúarferðinni til London og var tilkynnt að það hefði í raun ekki tilskilin leyfi. Það mál á hann von á að sé að hreinsast upp og flug geti hafist til London með eðlilegum hætti seint í sumar. Hann segir það mál allt stórfurðulegt.

Hann ræðir líka orkuskipti í flugi sem hann telur lengra í en margur. Lúlli fer yfir flugdelluna og sendir Barna Benediktssyni, fjármálaráðherra, skýr og einföld skilaboð.

Þorvaldur Lúðvík flýgur hátt í þætti dagsins sem er aðgengilegur áskrifendum Morgunblaðsins.

mbl.is