Endurnýjuðu samning við brottförina á EM

Vanda Sig. og Bogi Nils við brottförina.
Vanda Sig. og Bogi Nils við brottförina. Ljósmynd/Aðsend

Icelandair endurnýjaði í dag samstarfssamning við KSÍ og skrifað undir samning á Keflavíkurflugvelli við upphaf ferðalags ferðalags íslenska kvennalandsliðsins á EM 2022. Þetta segir í tilkynningu frá flugfélaginu.

Þar segir að með samstarfinu muni Icelandair styðja við starf KSÍ og landsliða Íslands þar sem rekstur landsliða felur í sér „mikil og kostnaðarsöm ferðalög um allan heim“.

Íslenska kvennalandsliðið hélt út til Póllands í morgun en þær spila vináttuleik gegn Póllandi á miðvikudag. Leikurinn er lokaundirbúningur fyrir EM.

Nýtt jafnréttisákvæði

Í samninginum, sem gildir út árið 2025, er lögð sérstök áhersla á jafnréttismál samkvæmt tilkynningunni og má þar meðal annars að finna nýtt ákvæði sem felur í sér að fjármunum samningsins sé jafnt varið á milli kynja.

Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair sagðist ánægður með að endurnýja samninginn.

„Við erum mjög ánægð með nýtt jafnréttisákvæði í samningnum sem tryggir að fjármunum sé jafnt varið milli kynja. Það er vel við hæfi að kynna það nú þegar okkar öfluga kvennalandslið hefur ferðina á EM 2022. Við munum fylgjast spennt með og fylgja þeim alla leið í þeirri vegferð,“ er haft eftir Boga í tilkynningunni.

Þá var formaður KSÍ einnig ánægð:

„Við erum afar ánægð með að endurnýja samninginn við Icelandair, sem hefur stutt dyggilega við starf KSÍ og við íslensku landsliðin um langt árabil. Ferðalög landsliða eru auðvitað stór þáttur í okkar starfsemi og samstarfið við Icelandair er og hefur verið ómetanlegt,“ sagði Vanda Sigurgeirsdóttir, formaður KSÍ.

Íslenska kvennalandsliðið tilbúið til brottfarar í morgun.
Íslenska kvennalandsliðið tilbúið til brottfarar í morgun. Ljósmynd/Vanda Sig.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert