„Þetta er alvarleg áminning“

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segir mikilvægt að grípa til róttækra aðgerða.
Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segir mikilvægt að grípa til róttækra aðgerða. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þetta er alvarleg áminning til okkar um það sem lögregla hefur í skýrslum sínum að vara við á síðustu árum og lítið hefur verið hlustað á. Þetta er mjög alvarleg áminning um það og það verður ekki búið við það lengur,“ segir Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra í samtali við mbl.is, um gríðarlega aukningu á vopnaútköllum síðustu ár og fjölgun skotárása.

„Það er mjög mikilvægt að grípa til róttækra aðgerða til að stöðva þessa þróun sem er að eiga sér stað,“ segir hann jafnframt. Meðal annars er til skoðunar að endurskoða byssulöggjöfina.

„Það eru margir angar á þessu máli

Jón tekur því undir það sem afbrotafræðingar hafa verið að segja um að bregðast verði við fjölgun skotárása hér á landi.

„Við erum að undirbúa slíkt á fjölmörgum vettvöngum þegar að þessu kemur."

Mar­grét­ Valdi­mars­dótt­ir, doktor í af­brota­fræði og dós­ent í lög­reglu­fræði við HA, sagði í samtali við mbl.is í síðustu viku það vera forgangsmál að hefja rann­sókn á því hvort of auðvelt er að fá skot­vopna­leyfi hér á landi og hvort end­ur­skoða þurfi byssu­lög­gjöf­ina.

„Það eru margir angar á þessu máli. Eins og fram kemur hjá afbrotafræðingum þá kemur þessi aukning úr mörgum áttum. Þetta eru bæði einstaklingar og hluti af skipulagðri brotastarfsemi sem hefur verið mjög mikið varað við hér. Við erum með öll þessi mál til skoðunar hjá okkur og byssulöggjöfin heyrir undir það líka,“ segir Jón.

Fá mikil varnaðarorð frá félögum

Margrét sagði einmitt að ekki væri nóg að hafa bara áhyggjur af ólöglegum skotvopnum. Því fleiri skotvopn sem væru skráð því fleiri vopn væru í umferð í samfélaginu.

„Við erum með í undirbúningi frumvarp fyrir lögreglu um víðtækari rannsóknarheimildir til samræmis við það sem er hjá öðrum þjóðum á Norðurlöndunum. Við fáum mikil varnaðarorð frá félögum okkar á Norðurlöndunum um þá þróun sem er að eiga sér stað hér og hvert þetta stefnir.“

Jón segir það alltof lengi hafa verið ágreiningsmál hvernig styðja eigi við lögreglu til að geta sinnt þessum málum. Efling á rannsóknarstarfsemi lögreglu og getu hennar til að bregðast við sé mikilvæg.

„Við erum með þennan málaflokk mjög undir í mikilvægri skoðun og við munum leggja fram lagabreytingar strax næsta haust og aftur næsta vetur í málum sem snúa að þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert