Ætla að flytja Eggin í kjölfar banaslyss

Frá Eggjunum í Gleðivík á Djúpavogi.
Frá Eggjunum í Gleðivík á Djúpavogi. mbl.is/Freyr

„Við hörmum það sorglega slys er varð við listaverkið og viljum gera allt sem í okkar valdi stendur til að koma í veg fyrir að nokkuð þessu líkt geti gerst aftur,“ segir í yfirlýsingu um framtíðarstaðsetningu listaverksins „Eggin í Gleðivík“. Banaslys varð í grennd við verkið á Djúpavogi fyrir viku síðan. 

Karlmaðurinn sem lést lenti fyrir lyftara á hafnarsvæði í Gleðivík.

„Á fundi Björns Ingimarssonar sveitarstjóra Múlaþings og Sigurðar Guðmundssonar höfundar listaverksins Eggin í Gleðivík, 23. júní 2022, var ákveðið að vinna að flutningi listaverksins frá hafnarsvæðinu á annan stað við sjávarsíðuna á Djúpavogi,“ segir í yfirlýsingunni. 

Listamaðurinn mótfallinn kaðli

Í yfirlýsingunni kemur fram að Sigurður hafi verið mótfallinn því að verkið yrði afgirt með kaðli sem aðskildi verkið frá athafnarsvæði hafnarinnar en fyrir hönd sveitarfélagsins hefur verið settur upp slíkur aðskilnaður meðfram verkinu.

„Óvíst er þó að sá búnaður hefði komið í veg fyrir það slys sem varð þar sem þau sem staðinn sækja eru ekki öll að fara þá gönguleið sem þar er mörkuð og er því það okkar samdóma álit að flutningur listaverksins af svæðinu sé nauðsynlegur. Eggin í Gleðivík eru eitt vinsælasta útilistaverk landsins og laðar að sér tugþúsundir gesta á ári hverju og er því fengur í að hafa verkið aðgengilegt fyrir ferðamenn og aðra gesti úr listaheiminum og því nauðsynlegt að velja því stað sem tryggir öryggi gesta. Við munum hafa samvinnu um það ferli,“ segir í yfirlýsingunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert