Breytileg veðrátta fram undan

Veðurblíða á Akureyri í fyrra.
Veðurblíða á Akureyri í fyrra. mbl.is/Þorgeir Baldursson

Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur og eigandi veðurvefsins Bliku, segir breytilega veðráttu verða næstu vikur og að enginn einn sérstakur landshluti virðist skera sig úr.

„Það má sjá á því að það virðist ætla að rigna eitthvað, en ekki mikið, í öllum landshlutum og þannig verður það fram yfir helgi,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Hann segir það einnig að sjá í spám að mikil hæð sem hefur verið að valda hitabylgjum í N-Noregi gefi sig og færist austar.

„Á sama tíma þá vex ásmegin annarri hæð hérna stutt suður af landinu sem teygir sig í átta að Bretlandseyjum. Það hefur þau áhrif að það er að sjá að það verði meira um suðvestanáttir í næstu viku,“ bætir Einar við.

Þungbúnara á Suður- og Vesturlandi

Einar bendir á að suðvestanátt sé góð fyrir þá sem eru fyrir austan og á Norðausturlandi en hins vegar verði þungbúnara á Suður- og Vesturlandi.

„Kemur fram í þessum kortum með hitafrávikum að hitinn er yfir meðallagi um austanvert landið en aðeins undir hérna suðvestanlands, og þá mætti túlka það sem svo að vindur af hafi sé svalur og það verði sólarlítið.“

Þá segir Einar að í vikunni á eftir (11-18. júlí) sé meiri dreifing í spánum. Þó megi sjá ákveðnar líkur á að það verði áfram hæð fyrir sunnan og suðvestanátt, en að ýmislegt annað komi líka til greina.  

Ekki svipuð staða og í fyrra

„Það er ekki að sjá að það sé að byggjast upp svipuð staða og í fyrra, með þessu ofboðslega góða veðri fyrir norðan og austan.“

Ítarlegri langtímaspá Einars má sjá á Blika.is.

mbl.is