Engin kæra frá Vítalíu í Löke

Vítalía og Arnar Grant.
Vítalía og Arnar Grant. Samsett mynd

Arnar Þór Stefánsson, lögmaður Þórðar Más Jóhannessonar, segir enga kæru liggja fyrir í gagnagrunni lögreglunnar, Löke, vegna meints kynferðisbrots skjólstæðings síns, Ara Edwald og Hreggviðs Jónssonar gegn Vítalíu Lasarevu. Óskað var eftir upplýsingunum hjá ríkislögreglustjóra.

Spurður hvort lögreglan gæti samt sem áður verið með málið í rannsókn segir Arnar Þór það mjög ólíklegt.  „Við spurðum um einhver mál í gangi og fengum útprent um að svo væri ekki. Við tökum það útprent trúanlegt,“ segir hann.

Áður hafði komið fram að Vítalia hafi kært menn­ina til lög­reglu fyr­ir kyn­ferðisof­beldi.

Arnar Þór Stefánsson lögmaður.
Arnar Þór Stefánsson lögmaður. Ljósmynd/Aðsend

Meint kynferðisbrot mannanna átti sér stað í sumarbústað í Skorradal. Gunnar Örn Jónsson, lögreglustjóri á Vesturlandi, segist ekkert geta tjáð sig um hvort lögreglan hafi verið með mál Vítalíu í rannsókn að eigin frumkvæði.

Sex ár fyrir tilraun til fjárkúgunar

Mennirnir þrír hafa lagt fram kæru gegn Vítalíu og einkaþjálfaranum Arnari Grant þar sem þau eru kærð fyrir tilraun til fjárkúgunar, hótanir og brot gegn friðhelgi einkalífsins. Þeir sem gerast sekir um tilraun til fjárkúgunar geta átt yfir höfði sér allt að sex ára fangelsi, samkvæmt 251. grein almennra hegningarlaga.

Spurður hversu langan tíma málið gæti tekið í kerfinu segist Arnar Þór ekki vita það en miðað við hans reynslu gæti það verið þó nokkur tími. „Það fer eftir því hvað lögreglan setur mikið púður í það.“

Sigurður G. Guðjónsson.
Sigurður G. Guðjónsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Hvorki lögmaður né vinur Arnars Grant

Nafn Sigurðar G. Guðjónssonar hæstaréttarlögmanns kemur við sögu í frétt Fréttablaðsins um kæru mannanna þriggja. Þar kemur fram að Arnar Grant hafi fært Sigurði einkaskilaboð milli sín og Vítalíu.

Í samtali við mbl.is kveðst Sigurður hvorki vera lögmaður Arnars né vinur hans og segir hann Arnar verða að svara því hvers vegna hann hafi sent honum einkaskilaboð. Ekki náðist í Arnar við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is

Bloggað um fréttina