Lærði að meta matreiðslu af ömmu sinni

Ísak Aron Jóhannsson starfar á veitingastaðnum Lúx og hefur unnið …
Ísak Aron Jóhannsson starfar á veitingastaðnum Lúx og hefur unnið á stöðum sem skarta Michelin-stjörnu. mbl.is/Árni Sæberg

Ísak Aron Jóhannsson er aðeins 24 ára gamall en hefur starfað í veitingabransanum í átta ár og meðal annars unnið á tveimur veitingastöðum prýddum Michelin-stjörnu. Í dag starfar hann sem yfirkokkur á Lux veitingum.

Ásamt því að starfa í veitingabransanum, er Ísak meðlimur í kokkalandsliðinu, sem keppir annars vegar á Ólympíuleikunum og hins vegar á heimsmeistaramótinu. Bæði eru haldin á fjögurra ára fresti og þar sérhæfir Ísak sig í forréttum og lystaukum.

„Við erum sex talsins í liðinu og á heimsmeistaramótinu vinnum við saman að því að útbúa annars vegar þriggja rétta máltíð fyrir 110 manns og hins vegar 14 rétta máltíð fyrir 12 manns. Það er auðvitað heljarmikil vinna sem fer í þetta, enda er æfingatímabilið um eitt og hálft ár. Bráðlega förum við að æfa allar helgar, þar sem mótið er í nóvember,“ segir Ísak.

Hann var fenginn í liðið árið 2019, en kokkalandsliðið keppti síðast á Ólympíuleikunum í mars árið 2020 þegar liðið lenti í 3. sæti og náði þar besta árangri íslenska liðsins frá upphafi.

Lærði að meta fiskinn

Ísak er uppalinn á Suðureyri og segir að áhuginn á matreiðslu hafi fylgt honum frá unga aldri.

„Það eru til fjölmargar myndir af mér að steikja pönnukökur og vöfflur þegar ég er aðeins þriggja eða fjögurra ára gamall, en ég lærði að meta eldamennsku af henni ömmu minni,“ segir Ísak og bætir við að fiskimenningin þar hafi fengið hann til að virða hráefnið í sinni upprunalegu mynd.

„Afi er trillusjómaður og það var rosalega gaman að sjá hann koma með nýveiddan fisk heim rétt fyrir kvöldmat, en þegar ég hóf svo vinnu í fiskvinnslu fimmtán ára gamall, komst ég að því einmitt hversu mikilvægur fiskurinn er fyrir íslenska matarmenningu,“ segir Ísak.

„Uppáhaldshráefnin mín eru klárlega þorskur og sítróna. Fólk talar oft um salt og pipar, en ég tala heldur um salt og sítrónu. Ég geri oft hægeldaðan þorsk með kampavínssósu, sem er hrikalega gott, en ég viðurkenni það alveg að fátt jafnast á við klassískan plokkfisk með svörtum pipar,“ svarar Ísak, spurður hvort hann eigi sér eftirlætishráefni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert