Lönduðu gulli í dansi á Spáni

Þessar 10 stelpur lönduðu gulli á heimsmeistaramótinu, Dance World Cup …
Þessar 10 stelpur lönduðu gulli á heimsmeistaramótinu, Dance World Cup á Spáni, með atriði sínu Yfir Vestfirðina, en þar þurftu þær að syngja, dansa og leika. Dansarar eru Aðalbjörg Ósk, Andrea Ísold, Bryndís Björk, Emma Rún, Freyja Marý, Heiðrún Lind, Katla Dröfn, Rebekka Dagbjört, Sonja Rós og Valgerður Pálína. Ljósmynd/Dance World Cup

„Ég veit bara hreinlega ekki hvað ég á að segja, ég er svo stolt, og það var ólýsanleg upplifun að heyra íslenska þjóðsönginn sunginn úr stúkunni,“ segir Elma Rún Kristinsdóttir, höfundur dansatriðis sem vann gullverðlaun sl. sunnudagskvöld á heimsmeistaramóti í danslistum, Dance World Cup, í San Sebastian á Spáni.

Krakkar á aldrinum fjögurra til tuttugu og sex ára taka þátt í þessu heimsmeistaramóti og dansarar úr 10 íslenskum dansskólum taka þátt í keppninni í ár, alls 208 krakkar. Dansarar siguratriðisins eru tíu stelpur frá DansKompaníi í Reykjanesbæ og þær stigu á pall í flokknum Children Small Group Song and dance, þar sem keppendur þurftu bæði að syngja, dansa og leika á sama tíma, svo það reyndi á fjölþætta hæfileika þessara ungu listamanna. Níu atriði kepptu í þessum flokki því fá atriði stóðust lágmarkseinkunn í hverju landi fyrir sig.

Skólastjórar og kennarar þeirra dansara sem taka þátt í keppninni.
Skólastjórar og kennarar þeirra dansara sem taka þátt í keppninni. Ljósmynd/Aðsend

Þvert á trú, kyn og húðlit

Rúmlega 300 íslenskir dansarar, kennarar og fjölskyldur þeirra koma saman á Spáni til þess að taka þátt í heimsmeistaramótinu, þar sem yfir 5.000 dansarar frá 37 löndum keppa í harðri samkeppni um heimsmeistaratitla í ýmsum flokkum danslista, svo sem klassískum ballett, nútímadansi, hipphoppi og mörgum fleirum. Keppt er í fjórum aldursflokkum, undir níu ára, undir 13 ára, undir 17 ára og undir 24 ára. Keppnin hófst á föstudag og stendur í heila viku.

Sigurganga íslenska liðsins hófst árið 2019 þegar hópur sem samanstóð af 228 íslenskum dönsurum keppti í borginni Braga í Portúgal. Þar vann íslenska liðið átta medalíur og þar af eitt gull.

Hægt er að fylgjast með íslenska hópnum á @dwciceland bæði á Instagram og Facebook.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag. 

mbl.is