Alltaf vandasamt að finna rétta tímann

Ljósmynd/Hafnarfjordur.is

Viðhalds­fram­kvæmd­ir hóf­ust í fyrradag við Suður­bæj­ar­laug og Ásvalla­laug í Hafnar­f­irði sem hafa áhrif á opn­un­ar­tíma laug­anna.

Vegna þessa verður aukið við opn­un í Sund­höll Hafn­ar­fjarðar og hún opin um helg­ar á meðan fram­kvæmd­um stend­ur.

Vandasamt að finna rétta tímann

Árdís Ármannsdóttir, samskiptastjóri Hafnarfjarðarbæjar, segir í skriflegu svari við fyrirspurn mbl.is að sundlaugar Hafnarfjarðar séu vinsælar allt árið um kring og að alltaf sé vandasamt að finna réttan tíma fyrir framkvæmdir og viðhald innan lauganna.

Suðurbæjarlaug er lokuð vegna umfangsmikilla framkvæmda á meðan Ásvallalaug er opin að öðru leyti en því að 50 m kar laugarinnar er lokað tímabundið vegna flísaviðgerða. Umrætt kar er í mikilli notkun frá morgni til kvölds yfir vetrarmánuðina undir æfingar og mót og því þótti tímasetning framkvæmdanna núna henta betur þar sem þær myndu hafa sem minnst áhrif.

Byggja á sundlaugarsvæði úti tvo kalda potta, eina vaðlaug, útihús …
Byggja á sundlaugarsvæði úti tvo kalda potta, eina vaðlaug, útihús sem inniheldur eimbað, útigeymslu og upphækkað vaktsvæði.

Sundstaðir í mikilli notkun haust, vetur og vor

Spurð af hverju ákveðið var að ráðast í framkvæmdir á tveimur af þremur sundlaugum sveitarfélagsins á sama tíma segir hún að yfir vetrartímann sé í gangi skólasund, sundæfingar, sundnámskeið og fleira auk þess sem ekki er hægt að fara í framkvæmdir utanhúss sökum veðurfars, s.s. vegna frosts og snjós.

Enn fremur segir hún að sundstaðir Hafnarfjarðar séu í mikilli notkun fyrir skipulagt starf haust, vetur og vor. Skólaslit grunnskólanna voru í kringum 10. júní í Hafnarfirði, auk þess sem æfingum hjá sundfélögunum lauk um miðjan mánuðinn.

Endanlegur kostnaður liggur ekki fyrir

Í Ásvallalaug er unnið að því að laga flísar í laug, hljóðvist við barnalaug, lýsingu í laug, auk fleiri almennra viðhaldsverka. Í Suðurbæjarlaug er fyrirhugað að laga flísar í laug, loftræstingu og breyta útisvæði.

Aðspurð segir hún að endanlegur kostnaður umræddra framkvæmda liggi ekki fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert