Ekki um netárás að ræða hjá Advania

Ekkert bendir til þess að netárás hafi valdið truflunum á …
Ekkert bendir til þess að netárás hafi valdið truflunum á neti sem stóðu yfir í um tvo tíma.

Ekki var um netárás að ræða þegar fjöldi vefsvæða, þar á meðal vefir stjórnarráðsins og dómstóla, lágu niðri vegna truflana í netþjónustu Advania. Þetta segir Þóra Tómasdóttir fjölmiðlafulltrúi Advania.

Truflanirnar voru þó tilkynntar til Fjarskiptastofu sem hefur óskað eftir frekari gögnum, þar sem um var að ræða mikilvæga innviði í landinu að sögn Hrafnkels V. Gíslasonar, forstjóra Fjarskiptastofu. Enn bendir ekkert til þess að um netárás hafi verið að ræða þrátt fyrir þetta að hans sögn.

Leyst tveimur tímum síðar

Tilkynningarskylda hvílir þá á fjarskiptafyrirtækjum gagnvart Fjarskiptastofu um hluti sem tengjast áfallaþoli fjarskiptaneta eða fjarkiptaþjónustu og varðar almannahagsmuni eða þjóðaröryggi.

Síðan klukkan 14.30 á föstudag, um tveimur tímum síðan bilana varð viðvart, hefur net verið stöðugt og er ekki búist við frekari truflunum. Sérfræðingar Advania nutu liðsinnis framleiðanda búnaðar fyrirtækisins til þess að greina vandamálið.

mbl.is