Hræddastur við að vakna steindauður

Guðjón Jónsson á Ási í Hveragerði.
Guðjón Jónsson á Ási í Hveragerði. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Gísli Sigurbjörnsson, forstjóri Grundar í Reykjavík, naut aðstoðar Guðjóns Jónssonar við að laga rafmagnið á árum áður og frá áramótunum 2008/2009 hefur Guðjón, sem er 97 ára, búið á Grundarheimilinu Ási í Hveragerði. „Þegar ég var að læra rafvirkjun um miðjan fimmta áratuginn var ég stundum sendur á Grund, en þá átti ég ekki von á því að enda hérna, enda er ég bara rafvirki,“ segir hann.

Lengra viðtal við Guðjón birtist á baksíðu Morgunblaðsins í gær, þriðjudag.

Ása Snæbjörnsdóttir, sambýliskona Guðjóns frá því þau voru um sextugt, lést fyrir um þremur árum. Áður eignaðist hann fjögur börn í tveimur samböndum og eru tvö þeirra á lífi. Hann segir að þau Ása hafi átt góð ár saman og meðal annars notið lífsins í fimm mánuði á Kanarí þegar þau voru áttræð. Ekki farið þangað síðan.

„Við fórum til Spánar á hverju ári, stundum tvisvar, fórum nokkrum sinnum í sjóinn á daginn og skemmtum okkur á diskótekunum á kvöldin. Kanarí var eiginlega okkar annað heimili. Þegar þú verður áttræður geturðu skemmt þér með konunni á Kanarí, en nú geri ég orðið ekki neitt, ligg bara og hugsa. Mig langar til að gera eitthvað en nenni því ekki, finnst best að liggja og sofa.“ Sjónin sé farin að dofna og því eigi hann erfitt með að halda sig við lestur eða horfa á sjónvarp. „Helst vildi ég vera úti að moka skít.“

Diskótek á Spáni á 100 ára afmælinu

Guðjón á góðar minningar frá æskuárunum og verður tíðrætt um að hann vilji upplifa lífið á diskótekum á ný þegar hann verði 100 ára.

„Ég vann mikið í danshúsunum, sá um diskóljósin á stöðum eins og í Glaumbæ, Klúbbnum og víðar. Allt það skemmtilegasta í lífinu er búið, en ég hef stundum sagt að ég vilji fara á diskótek á Spáni þegar ég verð 100 ára. Við sjáum til hvað verður. Þegar ég er lasinn segja stelpurnar hérna að þetta rjátlist af mér þegar ég verð gamall, en ég lifi bara af gömlum vana og er hræddastur við að vakna steindauður einn morguninn.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 2.090 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »